Þ ó einhverjir Suðurnesjamenn státi sig eflaust af því að hafa uppgötvað nafnið Ljósanótt um þá ágætu samnefndu hátíð í Reykjanesbæ er það fjarri öllu lagi. Það er stórborgin París sem að líkindum á heiðurinn af nafninu þó reyndar sé um það deilt milli borgaryfirvalda í París, Sánkti Pétursborg og Berlín.
Á frönsku er talað um Nuit Blanche og sé hægt að tala um að París lifni eitthvað frekar við en almennt gerist þá er það þessa nótt þegar söfn, gallerí, lestir, strætó og þó nokkrar verslanir eru opnar langt fram eftir nóttu.
Ekki aðeins það heldur er og miðbærinn skreyttur á ýmsa lund og ljós, birtu og lifandi listaverk að finna á ólíklegustu strætum. Þá er og almenn gestrisni Frakkanna meiri en gengur og gerist enda gleði í hjarta flestra sem spóka sig um þetta kvöld og nótt.
Hátíðin, sem er alls ómissandi og sennilega eina tækifærið til að skoða söfn Parísar ókeypis, fer ætíð fram í október ár hvert en dagsetningin getur verið mismunandi.
Sjá nánar um dagsetningar og hátíðina sjálfa hér. Þá er sjálfsagt að hafa í huga að nú á dögum er Ljósanóttin franska ekki einskorðuð við París heldur fer fram með einum eða öðrum hætti víða í landinu.