Skip to main content

G löggt er gests augað segir máltækið og er oftar en ekki orð að sönnu. En opnustu augu gesta missa stundum af merkilegum hlutum og svo er raunin með marga Íslendinga sem heimsótt hafa Spán um áraraðir.

Í Cardona er gamall flottur kastali hinn opinberi parador þess héraðs.

Það er nefninlega svo að hvort sem ferðast er á eigin vegum eða með ferðaskrifstofu vita fæstir af tilurð gistimöguleika sem heimamenn kalla paradores og þeir nýta sér óspart sjálfir enda reynslan jafnan fyrsta flokks.

Paradores voru þar til nýlega ríkisrekin gistihús þar sem öll þjónusta og matseld er jafnan í hávegum höfð og tekur mið af þeirri menningu sem fyrir er á þeim og þeim staðnum. Í mörgum tilfellum er það líka svo að til að koma sögu og menningu hvers svæðis sem best til skila er starfsfólk gististaðanna undantekningarlítið úr því héraði sem um ræðir.

Þetta parador hvílir í skjóli fjalla Cantabríu

Fer undantekningarlítið afar góðum sögum af öllum þeim paradores sem til eru í landinu. Öll eru þau til húsa í byggingum sem eiga sér sögu og þess vegna fá gestir töluvert meira fyrir peninginn en þjónustuna eina saman. Þeir upplifa sannan anda þess héraðs sem dvalið er í hvort sem um er ræða í mat og drykk eða gegnum sögu og menningu.

Spánverjar sjálfir gista ósjaldan í slíkum gistihúsum og þó sjaldan jafnist þau á við bestu hótel og séu mörg hver í dýrari kantinum geta gestir undantekningarlaust gengið að góðri þjónustu vísri og fara þaðan með þekkingu sem ekki fæst svo auðveldlega á dýrustu hótelum.

Má með sanni mæla með að prófa nótt eða fleiri á slíkum heimilum þyrsti menn í tilbreytingu á ferðalaginu. Paradores er auðvelt að finna á bókunarvél okkar hér að neðan.