Skip to main content

Þ að þarf snert af ævintýramennsku í blóðinu til að velja Moldóvu, eða Moldavíu, sem næsta áfangastað erlendis á kostnað enn einnar sólarferðar til Tenerife. En þrátt fyrir einhverja mestu fátækt í Evrópu er margt þar hreint kostulegt. Til dæmis lengsti vínkjallari heims. Langlengsti!

Í Moldóvu finnst 200 kílómetra langur vínkjallari í miðju landinu. Kjörstopp fyrir þyrsta að okkar mati 🙂

Það gæti kætt drykkfellda Íslendinga en ekki síður hina sem kunna sér hóf en finnst dásamlegt að vitna einstök fyrirbæri á heimsvísu 😉

Kjallarinn atarni og víngerðin sömuleiðis heitir Milestii Mici og í þessum 200 KÍLÓMETRA langa kjallara finnast svo miklir staflar af víni að harðasti alkohólisti gæti slefað fjóra, fimm hundruð metra áður en sá fellur í yfirlið. Þá á viðkomandi aðeins 199,5 kílómetra eftir.

Kjallarinn er svo frámunalega langur að ferðamenn sem hingað koma til að berja dýrðina augum þurfa jeppa undir sig til að fá hugmynd um lengd kjallarans. Lengdin er þó kannski ekki aðalatriðið eins og sumar konur vilja meina. Eðli máls samkvæmt geymir þessi mikli kjallari mestu birgðir af rauðvíni í víðri veröld. Litlar tvær MILLJÓNIR flaska samkvæmt síðustu talningu og þá aðeins rauðvínið talið.

Til að gæta allrar sanngirni er hér ekki um eiginlegan vínkjallara að ræða. Öllu heldur er mikið hellakerfi undir stórum hluta landsins og það voru stórir náttúrulegir hellar sem fyrst heilluðu víngerðarmenn til að koma vínum sínum hér fyrir. Síðan hefur auðvitað verið borað og hoggið á milli eftir atvikum og úr orðið þessi ógnarstóri og langi hellir. Sem er, nota bene, á heimsmetaskrá Guinness, sem langlengsti vínkjallari heims.

Sannarlega ráð að gera sér ferð hingað fyrir ævintýraþyrsta. Og aðra þyrsta líka 😉

PS: engum sérstökum sögum fer af Milestii Mici víninu sjálfu. Það þykir gott til brúks á heimaslóðum í Moldóvu/Moldavíu en þar sem það finnst hvergi í hillum verslana utan heimalandsins er óhætt að slá föstu að vínið fær engin sérstök verðlaun.

– thg

The Biggest Wine Cellar in the World: Milestii Mici Winery from David Hoffmann on Vimeo.