E ngar opinberar tölur eru til um þann fjölda Íslendinga sem sækja Tæland heim ár hvert. En líklega óhætt að tala um tvö til þrjú þúsund manns eða svo. Lungi þeirra dvelur mánuð, tvo eða jafnvel lengur sé þess kostur. En hvernig er vænlegast að gista í lengri tíma?

Blessuð sólin allt með kossi vekur og það ekki síst í Tælandi.

Við fórum að velta þessu fyrir okkur í kjölfar skeytis frá einstaklingi sem á engan að en á nokkra seðla í banka og fær auðvitað ellilífeyri ofan á það. Sá forvitnaðist um hvort ráðlegt væri að gista í langtímagistingu ef Tæland væri heimsótt í mánuð og tvo eða hvort íbúðaleigur á borð við Airbnb væru sniðugari kostur.

Langtímagisting margborgar sig

Við fundum svarið eftir skoðun. Víðs vegar í Tælandi er langtímagisting í boði og það oftast nær á ágætum hefðbundnum hótelum. Ástæðan ofur einfaldlega sú að margir þeir sem landið heimsækja eru svo ánægðir að heimahagarnir mega fara fjandans til. Yfirgnæfandi hluti þess fólks er komið á aldur ogkýs frekar hita og sól en hríðarbyl, frost og hálku. Ekki hvað síst þeir sem glíma við veikindi af einhverju taginu eins og gigt eða hafa alls ekkert svo mikið milli handanna þegar búið er að greiða helstu nauðsynjar heimavið.

Nýleg stúdíóíbúð í einu úthverfi Bangkok fæst á 110 þúsund krónur per mánuð.

Við leituðum bæði á okkar eigin margverðlaunuðum bókunarvef og víða annars staðar og niðurstaðan er skýr. Langtímagisting gegnum hótel sem slíkt bjóða er langtum ódýrari en að leigja kytru gegnum íbúðaleigu sé miðað við einn mánuð í senn.

Klárlega hægt að finna ágætar íbúðir víða í Tælandi sem hægt er að leigja mánuð og mánuð í senn en sé sú litla blokkaríbúð ekki í rassgati í einhverju úthverfi er ósennilegt að fólk sleppi með minna en 80-100 þúsund krónur fyrir mánuðinn. Sé íbúðin næs með svölum eða garði er kostnaðurinn kominn í 110 til 150 þúsund per mánuð í stærri borgum og bæjum. Hreint ekkert dýrt á íslenskan mælikvarða auðvitað en tiltölulega fokdýrt miðað við langtímagistingu á þeim hótelum sem það bjóða.

Thailand long stay

Lykilorðin þegar leitað er að gistingu til lengri tíma er „Thailand long stay,” „longstay hotel Thailand,” eða „longstay options Thailand.”

Það getur nefninlega verið pínu flókið að finna slíka gististaði því hér er oftast um að ræða hrein og bein hótel, sem vilja helst að fólk greiði fullt gjald fyrir hótelherbergi, eða á köflum fyrirtæki sem eiga og reka heilu blokkirnar og jafnvel heilu hverfin. Til að finna þau fyrirtæki sem bjóða langtímaleigu á lausum íbúðum þarf nánast að vita nafnið á fyrirtækinu og ennfremur nafnið á blokkinni, háhýsinu eða hverfinu.

Vissulega má finna langtímagistingu á bókunarvefum eins og Booking, Airbnb eða Homeaway. En undantekningarlítið er álagning þessara fyrirtækja út í Hróa hött. Dæmi um það má finna hér til hliðar. Þar kostar mánaðardvöl í desember í stúdíóíbúð tæpar 69 þúsund krónur.

Ekki slæmur díll kann einhver að hugsa. Brandaraverð og hótelið 400 metrum frá súperfínni ströndinni. Og já, það er morgunverður með í kaupbæti!!!

En komist menn yfir gleðina augnablik og leiti uppi hótelið sjálft er hægt að spara sér smápening til viðbótar. Þar kostar nefninlega desembermánuðurinn nákvæmlega 1300 baht. Sem miðað við gengið þegar þetta er skrifað eru 56 þúsund krónur. Þú sparar þér 13 þúsund kall fyrir þriggja stjörnu gistingu á góðu hóteli með þaksundlaug, morgunverði og örskammt frá fínni strönd með því einu að finna hótelið sjálft en ekki fara gegnum þriðja aðila.

Og 56 þúsund kall fyrir ágæta íbúð á fínu svæði í Pattaya á háannatíma er vissulega brandari. Og þetta ákveðna hótel er ekki eitt um að bjóða eitthvað spes. Það þarf bara að leita 😉