Skip to main content

Viljir þú fá sem allra mest fyrir peningana á ferðalagi vestur í Bandaríkjunum þá er besta ráðið til þess að sleppa því að nota kreditkort. Annaðhvort alfarið eða nota það til að taka út peninga úr hraðbanka áður en valsað er um í spennandi verslunum.

Vestanhafs bætist drjúg þóknun þarlendra aðila ofan á verð á vörum og þjónustu.

Vestanhafs bætist drjúg þóknun þarlendra aðila ofan á verð á vörum og þjónustu.

Nú er nefninlega komið sérstakt aukagjald víðast hvar í landinu noti fólk kreditkort til greiðslu á vörum og þjónustu. Eftirleiðis þarf því að bæta milli 1,5 til 3 prósent ofan á verð vöru sem þú hyggst greiða með kreditkorti því það er nú aukagjald sem leggst ofan á við kassa sé greitt með korti. Hafðu í huga að þessi upphæð er í ofanálag við þóknun banka heima á Íslandi fyrir kortanotkun erlendis sem einnig getur numið nokkrum upphæðum séu kort mikið brúkuð.

Engin risaupphæð vissulega en sannarlega upphæð sem þú getur alveg sloppið við með því að geyma kortið heima. Þriggja prósenta þóknun ofan á hundrað þúsund króna golfsett eru þrjú þúsund krónur! Eru ekki flest okkar sem ekki heita Orri Hauksson, Björgólfur Jóhannsson eða á bótum frá Kjararáði um klukkustund að vinna fyrir því?

Ástæða þessa er að kreditkortafyrirtækin Visa og Mastercard auk margra bandarískra banka brutu lög með samráði um kortagreiðslugjöld sín á milli um margra ára skeið. Það komst upp og kostaði fyrirtækin milljarða dollara sektir. Einn angi af samkomulegi við ríkið vegna þessa var að kortafyrirtækin lækkuðu um skeið þóknun sína gagnvart kaupmönnum sem aftur lækkuðu sína þóknun gagnvart viðskiptavini.

En ekki lengur. Nú hefur þóknunin verið hækkuð á nýjan leik en við það eru kaupmenn ósáttir sem þýðir að í stað þess að fella kortakostnað inn í vöruverð bætist kortagjaldið beint ofan á greiðslu við kassa. Það gerir sem sagt vöruna dýrari.

Fer það eftir fylkjum hversu há þóknunin er. Minnst nemur hún 1,5 prósenti af upphæðinni sem verslað er fyrir en mest þrjú prósent. Ekkert slíkt gjald er tekið af debitkortum.