E inu gildir hvar í landinu það er; sé ætlunin að versla í Indlandi þarf ekki aðeins megamikla þolinmæði fyrir eilífu áreiti sölumanna heldur og gæta þess að að vörurnar sem þig langar í séu ekki fals út í eitt. Svindl og svínarí er nefninlega dálítið þjóðarsport í landinu.

Það býr aðeins 1.3 milljarður fólks í Indlandi. Eðli máls samkvæmt eru markaðir troðnir öllum stundum.
Handofin teppi, fatnaður úr kasmírull og krydd á borð við saffran er meðal þess helsta sem erlent ferðafólk vill taka með sér heim frá Indlandi að ferð lokinni. En það getur sannarlega tekið á taugar að ætla sér að kaupa alvöru stöff en ekki góðar eftirlíkingar. Og hér í landi reyna allir að telja þér trú um að allt sé ekta og fyrsta flokks.
Vera kann að aðrir þarna úti eigi betri sögur af Indlandsferð en ritstjórn Fararheill. Ágengni sölumanna hér í landi er svo yfirgengileg að margir fá upp í kok eftir tvo, þrjú skref á mörkuðum. Ofan á það bætast betlarar sem eiga það margir til að elta erlenda ferðamenn fleiri kílómetra leið í von um ölmusu. Bættu svo við hávaða á við góða rokktónleika, rusl út um allar trissur plús grófa og leiðinlega loftmengun öllum stundum.
Það er sem sagt meira en að segja það að bregða sér í verslanir eða markaði í landinu. En jafnvel að teknu tilliti til alls ofangreinds er sennilega erfiðasta málið að kaupa ekta vörur en ekki eftirlíkingar. Allir sölumenn lofa fögru öllum stundum og margir hverjir mjög sannfærandi.
Hvað er til ráða?
Það eru stórar og góðar ástæður fyrir því að kryddið saffran og klæði gerð úr kasmírull eru bæði dýr og eftirsóknarverð. Svo dýrar eru þessar vörur að líkurnar á að þú finnir alvöru stöff á góðu verði hjá næsta götusala eru nánast ENGAR! Þeir eru undantekningarlaust í 99,9% tilfella að ljúga og svindla.
Saffran er dýrasta krydd jarðar og ástæðan mikið til sú hve lítið magn kryddfræja fást úr hverju blómi. Til að gefa hugmynd þá þarf frækorn úr tæplega 50 þúsund blómum til að ná einu kílói af kryddinu atarna. Það plús sú staðreynd að á Indlandi eru engar nútíma vélar í stórri verksmiðju að kremja fræin og koma kryddinu í umbúðir. Mestöll saffranframleiðsla Indlands er í höndum fátækra bænda og afurðin undantekningarlítið seld í lausu.

Indverska ríkið rekur eina til tvær verslanir í borgum landsins þar sem kaupa má raunveruleg kasmírklæði og saffran. Þar kosta herlegheitin yfirleitt tífalt meira en hjá götusölum sem þykjast bjóða sömu vörur.
Sama gildir um klæðin frá Kasmír. Ullin fræga kemur af geitum sem eingöngu halda sig þar hátt uppi í Himalæjafjöllum og það er einmitt afar lágt hitastigið á þeim slóðum sem er ástæða þess að ull geitanna er ÞREFALT léttari, sterkari og hlýrri en ull af hefðbundnum kindum.
Þrátt fyrir mikla eftirspurn um áraraðir er þetta mjög takmörkuð auðlind þó ekki sé nema vegna þess að hver geit gefur af sér í mesta lagi 200 grömm af nothæfri ull á ári hverju. Til samanburðar fást auðveldlega þrjú kíló af ull af flestum kindum heimsins á ársgrundvelli.
Verðmiðinn segir allt sem segja þarf
Í þessu ljósi má ljóst vera að það er ríkuleg ástæða fyrir að bæði saffran og klæði gerð úr kasmírull kosta duglega peninga. Það má glögglega ganga úr skugga um þetta í sérstökum verslunum sem indverska ríkið rekur í mörgum borgum Indlands. Í þeim má ganga út frá vísu að alvöru ull og alvöru saffran er til sölu enda eftirlit með verslunum og vörurnar koma beint frá bónda. En þar líka kosta þessar vörur tíu til tuttugu sinnum meira en hjá götusölunum. Sem er oftar en ekki einmitt verðmunurinn á alvöru hlutum og falsvörum víða um heim 🙂
PS: Best er að heimsækja opinbera upplýsingamiðstöð ferðamanna til að fá upplýsingar um hvar má finna næstu ríkisverslun. Slíkar upplýsingamiðstöðvar finnast stundum á flugvöllum en annars í miðborgum.