W isconsin fylki í Bandaríkjunum er sjaldan nefnt til sögunnar sem ómissandi áfangastaður ferðamanna. Reyndar aldrei ef út í það er farið. En sé það eitthvað eitt sem dregið hefur mann og annan hingað gegnum tíðina er það Harley-Davidson safnið.
Milwaukee í Wisconsin er nefninlega mekka mótorhjólagarpa hvarvetna í veröldinni og þá auðvitað fyrst og fremst þeirra sem aka um á slíkum hjólum enda hér sem Harley og Davidson þróuðu fyrsta hjólið og hér fer framleiðslan á hjólunum ennþá fram merkilegt nokk. Þykir til tíðinda í hjólaheimum að maður eða kona sem eitt sinn prófa Harley-Davidson sætti sig við eitthvað annað í kjölfarið.
Í raun má segja að þetta sé nánast ævintýraheimur fremur en safn. Sögunni gerð góð skil hér og kannski ekki síst forvitnilegast að Harley-Davidson náði aðeins fótfestu sem fyrirtæki eftir að bandarísk stjórnvöld keyptu slík hjól fyrir bréfbera, hermenn og lögregluna á sínum tíma.
Hér gefur að líta hundruð mismunandi hjól frá mismunandi tímum í ýmsu ásigkomulagi. Mörg Harley-hjól sem notuð hafa verið í kvikmyndum eru hér til sýnis og ekki síður merkilegt að sjá hér til sýnis eitt stykki Harley sem fannst rekið upp í fjöru í Kanada fyrir margt löngu. Í ljós kom að hjól þetta hafði sópast í hafið við Japan í flóðöldu og borist alla leið yfir Kyrrahafið.
Ein stærsta stund aðdáenda hjólanna er þó að heimsækja verksmiðjuna sjálfa sem einnig er hér staðsett og fylgjast með frá A til Ö hvernig Harley-Davidson verður til. Verksmiðjan ekki beint lítil en töluvert smærri en fólk almennt gerir sér í hugarlund fyrir svo þekkta framleiðendur.
Vart þarf að taka fram að hér er hægt að kaupa minjagripi í milljónavís, éta á sig gat á ekta Harley búllu og auðvitað drekka sig stútfullan á Harley-barnum. Þess utan er algengt að sérstakar uppákomur séu í gangi og má finna allt um það á heimasíðu safnsins.
Það má því segja að þótt Milwaukee sé kannski ekki ómissandi stopp er Harley-Davidson safnið það sannarlega fyrir aðdáendur. Það er opið daglega 9 til 18 og til 20 á fimmtudagskvöldum. Aðgangseyrir fyrir fullorðna er 2.400 krónur en 1.200 krónur á þriðjudögum. Ágætt að gefa sér þrjá til fjóra tíma til að taka allt hér inn stresslaust.
Einfaldasta leiðin frá Íslandi hingað þessa dagana er að fljúga til Chicago eða Minneapolis og þaðan taka rútu, bílaleigubíl eða bílaleiguhjól til Milwaukee. Það er reyndar rúmlega fimm tíma rúntur frá Minneapolis en frá Chicago er hingað komist á þremur tímum eða svo.