V ið fáum reglulega þessa spurningu hvernig best sé og vænlegast að þvælast um hina dásamlegu Kúbu. Sem betur fer er það nú töluvert auðveldara en áður var.

Sko Kúbverja!!! Nýtísku langferðabílar um allar trissur :)

Sko Kúbverja!!! Nýtísku langferðabílar um allar trissur 🙂

Það er ekki langt síðan að ferðamenn sem vildu þvælast um eynna lentu fljótt á vegg varðandi ferðamöguleika. Rútur heimamanna frá þeim tíma þegar víkingar gerðu strandhögg á Íslandi og sökum þess að ferðir voru fáar, oftast aðeins ein á dag, troðnari en gjafapoki jólasveinsins á aðfangadag.

Bílaleigubílar voru alls ekkert í boði lengi vel og þaðan af síður máttu margir ferðaþjónustuaðilar rúnta um með ferðalanga án þess að verða sér úti um sjö þúsund leyfi og bíða 1001 nótt eftir þeim leyfum.

Ekki var heldur möguleiki að leigja sér hjól eða mótorhjól. Slíkt var bannað þangað til nýlega og jafnvel í þau skipti sem það var hægt voru hjólin komin svo til ára sinna að ekki var hægt að treysta á þau út á næsta bar, hvað þá milli bæja og borga.

Helsti möguleikinn var að fá leigubílstjóra til að taka langan rúnt en þar sem slíkt var líka á gráu svæði gagnvart lögunum var ekki heiglum hent að fá mann í það djobb. Þeir gátu misst leyfið ef þeir náðust utan þeirra svæða sem þeim var heimilt að aka um.

Þetta hefur allt saman tekið töluverðum breytingum til batnaðar á aðeins fimm til tíu árum. Svo mjög reyndar að þó enn finnist þessar þreyttu og lúnu, en skemmtilegu, fimmtíu ára gömlu rússnesku rútur og þaðan af verri strætisvagnar, þá er nú líka hægt að þvælast um í nýtískulegum langferðabílum og það til æði margra staða ef tími er nægur. Fyrirtækið sem þá rekur heitir Viazul og á vef þeirra má bóka sæti á netinu eins og Kúba sé fyrir löngu komin inn í nútímann. Við getum vottað að þó tímatafla þeirra standist ekki alltaf eins og stafur á bók þá er fyrirtækið traust og kemur þér á áfangastað í töluverðum lúxus miðað við Kúbu.

Varla skal koma á óvart að verðlagning er í lægri kantinum. Hægt að skottast frá Varadero yfir til Trinidad svo dæmi sé tekið fyrir um 2.600 krónur en sá túr tekur rúmar sex klukkustundir. Til samanburðar kostar slíkur rúturúntur hér á Íslandi rúmar tíu þúsund krónur.

En það eru ekki bara langferðabifreiðar sem eru tipp topp á Kúbu. Nú eru þar starfandi bæði hjóla- og bílaleigur þó fáar séu og því hægt að leigja fararskjóta ef sá gállinn er á fólki. Transtur fær nokkuð góða dóma á netinu.

Ráð er líka, sért þú lesandi góður, að velta Kúbuþvælingi fyrir þér að skoða hótelvef okkar hér að neðan. Þar finnst nefninlega slatti af hinum frægu heimagistingum Kúbverja sem við mælum heils hugar með 🙂