Fátt ljúfara en taka sér sæti í nýjum farþegavélum sem anga af hreinlæti, engar tyggjóklessur undir sætinu og flugstjórar njóta þess allra besta og nýjasta í tölvutækni. Þetta gæti barasta orðið ljúfasta flug nokkru sinni. Eða ekki.

Glænýjar Boeing Max vélar Icelandair luma á nýjungum sem jafnvel flugmennirnir vita ekki um.
Einkar athyglisverð grein hins bandaríska fréttamiðils Wall Street Journal birtist fyrr í dag en þar er fjallað um hræðilegt flugslys vélar Lion Air í Indónesíu fyrir skömmu en í því slysi létust tæplega 200 farþegar.
En nú óhætt að spyrja hvort um slys hafi raunverulega verið að ræða eða beinlínis hryllilegt gáleysi bandaríska flugvélaframleiðandans.
Í ljós kemur að Boeing samsteypan lét alfarið hjá líða að tilkynna kaupendum nýrra Max-véla sinna að í þeim rellum sé tæknibúnaður sem getur yfirtekið stjórn á vélunum og það jafnvel þó flogið sé með handafli!!!
Fram kemur í frétt WSJ að í Max-vélum Boeing, sem Icelandair notar í sínu flugi, sé tölvubúnaður sem tekur yfir stjórn vélanna við tilteknar aðstæður eins og við hugsanlegt ofris og til þess að aftengja þá sjálfvirkni þurfi að beita ýmsum brögðum og brellum svo flugmenn geti náð stjórn að nýju. Gallinn bara sá að Boeing sá enga ástæðu til að segja frá þessari flottu nýjung og því vita engir flugmenn af því að rellan geti tekið stjórnina sísona og hvað þá vitað hvernig á að taka aftur stjórn á rellunni ef slíkt gerist.
Þetta svo vítavert að engu tali tekur. Dregnar eru ályktanir í grein WSJ þess efnis að það sé einmitt þessi ekki-svo-flotta nýjung Boeing sem hafi beinlínis valdið flugslysinu í Indónesíu. Það mun þó ekki liggja fyrir nema svarti-kassi vélarinnar finnist sem hefur ekki gerst ennþá.
Lesendum okkar frjálst að fljúga með hverjum sem er en enginn hér á ritstjórn stígur táslu um borð í Boeing Max vél fyrr en ljóst er orðið að flugmenn á Boeing Max vélum viti upp á hár upp á hverju tölvubúnaður vélarinnar getur tekið. Sjálfsagt fyrir flughrædda sem ætla í flug með Icelandair að kanna nákvæmlega hvort rellan er Boeing Max eða ein af þessum tuttugu ára gömlu.







