Kannski fáir nema harðkjarna aðdáendur sem vita að golfgoðið Woods á og rekur sinn eigin veitingastað í heimabæ sínum Júpiter í Flórídafylki. Woods Jupiter heitir sá staður og Woods sjálfur hannaði staðinn og matseðilinn og gerir víst töluvert mikið af því að setjast hér inn þegar ekki mæðir mikið á í golfinu.
Ferð hingað ekki svo vitlaus fyrir þær þúsundir Íslendinga sem einmitt sækja Flórída heim til golfs og ráðagerða ár hvert en þeir flestir dvelja í eða við Orlandó. Frá Orlandó til Júpiter er komist á tæpum tveimur klukkustundum bílandi.
Bærinn sjálfur tiltölulega lítill og vissulega eilítið snobbaður en fallegur eins og flestir staðir við austurströnd Flórída og fátt vitlaust við að aka upp eða niður þá strandlengjuna.
Þó vissulega sé kannski hæpið að rekast á kappann sísona á The Woods þá væri það líka risastór rúsína í pylsuendanum ef svo hittir á. Í versta falli fær maður gott í gogg.