Skip to main content

Þ ú finnur sirkabát ekki neitt um smábæinn Borja á opinberum vef spænska ferðamálaráðuneytisins. En létt innlit þangað gæti vel lengt lífið 🙂

Fyrir (vinstri) og eftir (hægri) lagfæringu. Almennt ekkert hlægilegt við eyðileggingu á fornum minjum og listum. En undantekning á því finnst í smábænum Borja á Spáni.

Það er að segja ef rétt sé að hlátur lengi lífið gætu Spánarfarar á flakkinu gert margt verra en gert sér leið í smábæinn Borja sem finnst í rösklega hálftíma fjarlægð frá borginni Saragossa (Zaragoza.)

Bærinn sjálfur óttalegt krummaskuð og fátt sem gleður augað umfram aðra smábæi á Spáni.

En það gleður sannarlega bæði auga og geð að reka nefið inn í einu kirkju bæjarins. Á einum vegg kirkjunnar gefur nefninlega að líta merkasta listaverk bæjarins, Ecce Homo, sem á frummálinu, sem þýða má sem Lítið manninn, og gefur þar að líta Jesús Krist sjálfan horfa dreymandi út í tómið. Verkið margra alda gamalt og lengi verið á skrá spænsku þjóðminjastofnunarinnar sem ómetanlegt listaverk.

Víkur þá sögunni til ársins 2010 þegar áttatíu ára gamall kirkjugestur tók að sér, upp á sitt einsdæmi og án leyfis, að „lagfæra” freskuna í kirkjunni. Verkið var jú farið að láta vel á sjá og ekki má blettur sjást á ásjónu hins heilaga Jesú Krists ekki satt?

„Lagfæringin” gekk svo herfilega að freskan í kirkjunni mun aldrei bíða þess bætur eins og sjá má á myndinni hér að ofan. En sjóðir Borja hafa vaxið duglega síðan „lagfæringin” varð að fjölmiðlaefni. Það helgast af því að fjöldi ferðamanna leggja nú leið sína til Borja til að vitna ævintýralega lélega lagfæringuna og langflestir hlæja sig máttlausa um leið og þeir vitna verkið.

Við hér hjá Fararheill gerðum okkur eðlilega sérferð til Borja nýverið enda hlátursköst ómetanleg og það hvort sem þau lengja lífið eður ei. Skemmst frá að segja að túrinn var 110% þess virði og ferðin til baka til Zaragossa tók ívið lengri tíma en ella sökum krampa í hlátursvöðvum.

Toppstopp á Spáni ef þú spyrð okkur 😉