„Á þessum tíma höfum við einfaldlega ekki upplýsingar til að ástæða sé til að kyrrsetja þessar vélar,” segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, um þá ákvörðun Icelandair að keyra áfram Boeing Max vélar sínar þrátt fyrir tvö hræðileg óútskýrð flugslys slíkra véla á skömmum tíma.

Forstjóri Icelandair til svars um þá ákvörðun að fljúga áfram vafasömum vélum? Neibbs, hann sendi undirsáta. Skjáskot
Alltaf hægt að stóla á markaðsfólk til að breyta neikvæðum þáttum í jákvæðan 😉
Slíkt sleppur þegar upp kemst að mórallinn hjá IKEA er ömurlegur enda engin mannslíf í húfi þar. Öllu verra þegar flugfélag flýgur áfram glænýjum rellum sem hafa TVÍVEGIS hrapað til jarðar með hörmulegum afleiðingum fyrir þúsundir einstaklinga.
Það sannaðist þennan daginn hversu mikill ræfill forstjóri Icelandair er í raun og veru. Frostpinninn Bogi Nils sendi undirsáta sinn til að réttlæta það að Icelandair ætlar áfram að fljúga vafasömum rellum þrátt fyrir tvö ægileg slys á skömmum tíma.
Ekkert diss á Jens Þórðarson, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Icelandair, sem tók erfiðu spurningarnar í Kastljósi kvöldsins. Sá virðist raunverulega vera manneskja miðað við hversu hann iðaði í sæti sínu vegna réttmætra spurninga. Manneskja sem sennilega sagði hluti sem hann trúir ekki sjálfur.
Skoðum aðeins yfirlýsinguna „á þessum tíma höfum við einfaldlega ekki upplýsingar til að ástæða sé til þess að kyrrsetja þessar vélar.”
Hmmm. Hvað um 246 ástæður. Það er að segja þær manneskjur sem látið hafa lífið í óútskýrðum flugslysum nýjustu þotu Boeing á síðustu sex mánuðum? Eru þær manneskjur ekki nógu góð ástæða fyrir forsvarsmenn Icelandair til að planta Max-vélum sínum inn í næsta flugskýli þangað til orsök þessara hræðilegu slysa verða kunn?
Icelandair getur engan veginn montað sig af því að öryggi farþega sé númer eitt, tvö og þrjú þegar afar vafasamar rellur með hrapallega sögu er flogið áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Stór mínus fyrir Icelandair og önnur þau flugfélög sem fljúga Max-vélum áfram. Kostnaður flugfélaga metinn merkilegri en mannslíf…







