Þ að hljómar undarlega að besta útsýn yfir stórborg sé úr kanó. En kannski ekki þegar Kanó er veitingastaður.

Miðborg Toronto er æði framúrstefnuleg séð úr lofti. Það má gera á þægilegri máta en paufast upp CN turninn fræga.

Miðborg Toronto er æði framúrstefnuleg séð úr lofti. Það má gera á þægilegri máta en paufast upp CN turninn fræga.

Kanó, Canoe á frummálinu, er veitingastaður í dýrari kantinum á efstu hæð háhýsis sem kennt er við Toronto Dominion Bank og allir þekkja í borginni.

Fyrir utan matinn sem fær fínustu dóma í helstu miðlum eru hér stórir og miklir gluggar sem gefa æði fína útsýn yfir borg og bí enda veitingastaðurinn á 54. hæð. Þar á meðal útsýni beint yfir í CN turninn fræga sem er hæsta mannvirki Kanada. Þaðan er vitaskuld líklega allra besta útsýnið en allra þægilegast er það ábyggilega frá Canoe. Það eru jú ekki rúmlega milljón ferðamenn að troða sér inn á veitingastaðinn á ársgrundvelli eins og í turninn fræga.

Ef peningar eru af skornum skammti eða enginn vilji til að sitja á frekar geldum veitingastað er líka óvitlaust að planta rassi sínum niður á Panorama Lounge í öðrum nálægum turni. Sá turn heitir Manulife Centre og þar á 51. hæð er kokteil- og tapasbar a betri gerðinni með allverulega fínt útsýni. Hér er líka öllu meira stuð almennt en á Canoe sem er alltaf plús fyrir utan að drykkir eru á verði sem krónueigendur ráða við.