L íklega þekkja það mætavel margir Íslendingar hversu erfitt er að fá góðan og mettandi mat í þeirri ferðamannagildru sem Benidorm er löngu orðin.
Staðurinn var orðinn það vinsæll um tíma að hvaða hálfviti sem var gat plantað nokkrum plaststólum úr Rúmfatalagernum úti á götu og boðið upp á soðinn hákarl með svínapylsur í forrétt og verið viss um feitan bisness.
Þetta hefur aðeins breyst til batnaðar hin síðari ár enda borgaryfirvöld löngu búin að gera sér ljóst að sá fjöldatúrismi sem borgin gerði út á um áraraðir virkar einungis í nokkur ár áður en flestir fá sig fullsadda.
En þeir eru vandfundnir veitingastaðirnir í borginni sem gera menn fullsadda og þokkalega ánægða enda ein arfleifð fjöldatúrismans á sínum tíma hundruðir veitingastaða sem rétt slefa yfir að vera skyndibitastaðir í besta falli.
Hinir frómu sérfræðingar Michelin vita hins vegar um fimm staði í nágrenni Benídorm sem þeir telja sig geta mælt með án þess að skaða merkið og mannorðið. Ekki er um stjörnuveitingastaði að ræða heldur vinalega og kósí staði þar sem eigandinn er ekki alveg pikkfastur í þeirri hugmyndafræði að græða sem allra mest á öllum sem til hans koma. Gallinn sá að enginn staðanna fimm er í borginni sjálfri heldur aðeins fyrir utan. En hver þarf ekki að komast frá Benidorm reglulega 😉
Staðirnir eru:
♥ Nou Salat í bænum El Castell de Guadalest
♥ L´Obrer í bænum Benimantell
♥ Lolo í bænum Alcoi
♥ La Montaña í bænum Cocentaina
♥ Ricardo í bænum Ibi