S vo þú telur þig góðan hjólreiðamann? Þá ættirðu kannski að láta á það reyna í erfiðasta en jafnframt stórkostlegasta hjólreiðatúr samtímans Tour d´Afrique þar sem hjólað er stanslítið frá Kaíró í Egyptalandi niður alla Afríku og endað í Cape Town í Suður Afríku.
Vart er til skemmtilegri álfa til hjólreiða en Afríka með sitt fjölbreytta landslag, hættur á hverju strái og víðast hvar erfiðari vegi en hjólreiðamenn eiga alla jafna að venjast.
Leiðin er engan veginn fyrir alla enda tæplega tólf þúsund kílómetra vegalengd um tíu lönd þar sem hjólað er og meira og minna allan tímann í steikjandi hita.
Keppni þessi hefur verið haldin árlega frá árinu 2003 og árlega fjölgar í hópnum enda njóta hjólreiðar vaxandi vinsælda í öllum hinum vestræna heimi en þaðan koma langflestir keppendur Tour d´Afrique.
Heilir hjólreiðadagar í keppninni eru alls 94 auk 25 daga í hvíld á milli en af því má sjá að ekki tekur hver sem er þátt í slíku. Ekki aðeins vegna þess hve erfitt þetta er heldur og tekur þátttaka rúma fjóra mánuði og ekki er heldur tilboðsverð á þátttökugjaldinu. Það var rúm 1,7 milljón króna árið 2017.
Nánar á heimasíðu Tour d´Afrique hér.