Við hér átt okkar skorpur við Skúla Mogensen gegnum tíðina enda lagðist sá æði lágt um tíma. En við stöndum upp og klöppum fyrir ættingja hans, þingkonunni Halldóru Mogensen, sem segir á fésbókinni að ef Icelandair sé svona gríðarlega kerfislega mikilvægt fyrir Ísland og Íslendinga, eins og ríkisstjórnin vill vera láta, sé eðlilegt að flugfélagið sé ríkisvætt.

Ef apparat er þjóðhagslega mikilvægt á að ríkisvæða það prontó. Mynd Icelandair
Orð að sönnu. Hvert það apparat sem telst sérstaklega mikilvægt samfélagi Íslands og Íslendinga á vitaskuld að vera rekið af ríkinu. Ekki vegna þess að ríkið sé betri rekstraraðili en einkaaðilar heldur sökum þess að einkaaðilar hugsa um sinn hag fyrst og fremst, hvert tré, meðan ríkið hugsar um fjöldann, allan skóginn.
Sextán milljarða króna lán ríkisins til Icelandair í ofanálag við að greiða laun starfsmanna þess um margra mánaða skeið, í ofanálag við að greiða bætur þeim þúsundum sem fyrirtækið hefur hent fyrir róða, í ofanálag við margvíslega aðstoð árum saman, er eiginlega korn sem fyllir mælinn. Íslenska ríkið hefur nú þegar eytt tugum milljarða af skattfé, þessum peningum sem eiga að bæta land og þjóð, í flugfélag hvers virði rétt slefar tíu milljarða á hlutabréfamarkaði. Tryggingar fyrir herlegheitunum eru einhverjar elstu þotur sem evrópskt flugfélag notar.
Á fagmáli kallast þetta að henda góðum peningum á eftir slæmum. Víst gera áætlanir forsvarsmanna Icelandair ráð fyrir feitum viðsnúningi strax í byrjun næsta árs og að hagnaður verði á starfseminni það árið. En þá ber að hafa í huga að þetta er flugfélag sem sýndi ALDREI hagnað á mesta góðæristíma í íslenskri ferðaþjónustu. Þvert á móti skiptir tap þess síðustu fimm, sex árin milljörðum króna. Líkurnar á að Icelandair sýni hagnað 2021 eru ENGAR! Það jafnvel þó lækning finnist við kóróna strax 1. janúar 2021.
Ekki aðeins fær Icelandair skattpeninga gefins eftir hentugleika heldur og hangir líf fyrirtækisins á hlutafjárútboði um miðjan mánuð. Þar stóla forráðamenn á íslenska peninga til aðstoðar. Það er að segja peninga eldri borgara hjá lífeyrissjóðum landsmanna. Lífeyrissjóðum sem þegar hafa tapað fúlgum fjár á hlutum sínum í flugfélaginu. Tap sem merkir að heil kynslóð ellilífeyrisþega fær líklega mun minna í vasann en von var á.
Halldóra Mogensen kann að setja saman tvo og tvo án þess að úr verði fimm. „Ég tel best að líta til nágrannalanda sem eru að eignast hlut í sínum flugfélögum. Ef flugfélagið er svona kerfislega mikilvægt að það er „too big to fail“ þá ætti það að vera í ríkiseigu.”
Hallelújah fyrir því.







