Ý mislegt skrýtið í kýrhausnum og nokkuð víðar en það. Hver vissi til dæmis að það eru aðeins rúmir 30 kílómetrar á milli Kanada og Frakklands.

Einn af fallega staðsettum bæjum Nýfundnalands. Skjáskot

Kórónavírus geysar um heim allan og alls óljóst hvað verður í framtíðinni. Þar á meðal hvort Icelandair muni nokkru sinni aftur fljúga beint til Halifax í Nova Scotia á austurströnd Kanada.

Halifax per se ekkert til að fara á límingunum yfir en það er nágrannaeyjan Nýfundnaland sem ætti að kveikja ferðabál í hugum forvitinna Íslendinga. Það er jú þar sem sagt er að finnist einu minjar þess að Leifur Heppni hinn íslenski og hans fólk náðu landi vestanhafs fyrst allra Evrópubúa og það nokkrum öldum áður en Kólumbus hinn ítalski skaufaðist á svipaðar slóðir og hirti þann titil samkvæmt flestum sögubókum.

Aðeins betri rauðvín og ostar í verslunum hér en í nágrannahéruðum 🙂

Nýfundnaland líkt og flest annað á norðausturströnd Kanada minnir um margt á Íslandið góða. Grösugar en fábreyttar klettaeyjur sem eru veðurbarðar til helvítis en fyrir vikið eru eyjaskeggjar alvöru fólk sem þolir illa yfirborðsprjál. Það þarf ekki marga bjóra á bar hér til að kynnast mörgu merkilegu fólki.

Nýfundnaland á sér sitthvað annað til frægðar og þar kannski helst að það var ekki hér langt frá sem hið fræga Titanic steypti á jaka á sínum tíma og sökk með hræðilegu mannfalli. En svo er annað sem þetta svæði gæti státað sig af en gerir ekki; héðan tekur bara 40 mínútur að komast til Frakklands.

Jamms, þú last þetta rétt: 40 mínútur til Frakklands!

Enginn nafli alheims en St.Pierre og Miquelon eru verulega sérstakar eyjur.

Ekki svo að skilja að á Nýfundnalandi sé búið að finna upp og verið að nota rellur sem fljúga á fjórföldum hljóðhraða sem er sirkabát hraðinn sem þarf til að komast frá Kanada til Frakklands á 40 mínútum eða svo. Öllu heldur sú staðreynd að tvær örlitlar eyjur við suðurströnd Nýfundnalands tilheyra Frakklandi. Svo mjög að sumir eyjaskeggjar tala ekkert nema frönsku!!!

Þetta er alveg æðislegt. Fljótabátur frá Nýfundnalandi flytur áhugasama til Frakklands, með frönskum kúltúr og frönsku tungumáli á 40 mínútum eða svo. Segið svo að heimurinn sé ekki dálítið dásamlegur 🙂

Eyjurnar sem hér um ræðir má sjá hér til hliðar en þær heita St.Pierre og Miquelon. Ekkert ómissandi við heimsókn annað en að vera næstum í vetfangi komin í alvöru franska stemmningu á smáeyju í ballarhafi við Kanada.

Mælum 100 prósent með túr hingað ef þú ert á þvælingi á þessum slóðunum. Joie de Vivre 🙂