Það getur verið fjandanum erfiðara að eyða miklum tíma í New York. Hún er nokkuð þung á pyngjunni og allra verst hvað viðkemur gistingu sem óvíða er dýrari.

Ágætt ráð til að gista í New York á lægra verði en ella um helgar. Mynd photophilde

Ágætt ráð til að gista í New York á lægra verði en ella um helgar. Mynd photophilde

Meðalverð á gistinótt í borginni á síðasta ári reyndist 32 þúsund krónur samkvæmt hótelvefnum Hotelchatter en það meðalverð þó blekkjandi því sé aðeins litið til hótela á vinsælli svæðum hoppar það auðveldlega í og yfir 40 þúsund krónur per nótt. Í öllu falli í dýrari kantinum.

Almennt talað er allra dýrasta svæðið Manhattan og ekki síst viðskiptahverfið sem er syðsti oddi þess sem flokkast sem Lower Manhattan. Það auðþekkt á Wall Street og ekki síður nú til dags á One World Trade Center sem byggður hefur verið í stað Tvíburaturnanna.

Það má vera of langsótt ef dvelja á lengi í borginni en sé aðeins um stutta helgarferð að ræða er hægt að spara góðan skilding á að finna hótel í viðskiptahverfinu umfram önnur hverfi. Það er nefninlega hið eina í borginni þar sem verð á gistingu lækkar um helgar. Í sumum tilfellum um allt að 20 til 25 prósent að því er fræðingar Expedia hafa reiknað út.

Þetta á reyndar við í velflestum borgum þar sem stærri viðskiptahverfi finnast og helgast af því að hótel eru yfirleitt mjög vel nýtt á virkum dögum meðan fólk er á ferð og flugi að gera bisness og vill tímabundið fólk þá vera sem allra næst fundarstað. En um helgar loka öll fjármálafyrirtæki og hótelin tæmast mörg á meðan. Við því bregðast þau sum, en ekki öll, með að lækka verð duglega laugardaga og sunnudaga og jafnvel föstudaga líka.

Þetta sést glögglega á hótelleitarvél Fararheill en á henni er hægt að leita sérstaklega eftir hverfum í borgum heims og þar með taldri New York. Í miðri viku í desember kostar til dæmis 79 þúsund krónur að dvelja nótt á fjögurra stjörnu Millennium Hilton en dvöl þar aðfararnótt sunnudags í sömu viku fæst niður undir 50 þúsund krónur.

Það munar um það fyrir okkur sem eigum ekki 50 milljónir á einhverri bók sem fallin er í gleymsku…