Skip to main content

E instöku sinnum eru hlutir sem hljóma of góðir til að vera sannir raunverulega sannir. Það á klárlega við um þjónustu sem er í boði frá Edinborg í Skotlandi en þar býður leiðsögufyrirtækið Hairy Coo upp á ókeypis dagsferðir um skosku hálendið.

Falkirk hjólið er í raun risavaxin bátalyfta sem sameinar tvo skipaskurði. Mynd hockadilly

Falkirk hjólið er í raun risavaxin bátalyfta sem sameinar tvo skipaskurði. Mynd hockadilly

Láttu skringilegt nafnið ekki blekkja þig. Skotar eru, þegar þeir þurfa ekki að lána peninga, nokkuð skemmtilegur félagsskapur og Hairy Coo er fyrirtæki sem er rekið af þaulvönum leiðsögumönnum.

Þeir bjóða í raun og veru ókeypis ferðir og leiðsögn um alla helstu forvitnilega staði og njótir þú ferðarinnar eru frjáls framlög í lokin vel þegin. Enginn þarf að greiða frekar en hann vill en Íslendingar vilja varla vera þekktir sem meiri nískupúkar en Skotar sjálfir.

Rúnturinn sem í boði er býður upp á leiðsögn um Forth Bridge, Menteith vatn, hádegisverður í hálendisþorpinu Aberfoyle, fjölmörg vötn á leiðinni og Trossach dalirnir eru skoðaðir. Ekki nóg með það heldur er túrað áfram utan alfaraleiða og skoðaðir gamlir stórkostlegir kastalar og Wallace minnismerkið fræga áður en lokahnykkurinn er við Falkirk hjólið sem er verkfræðilegt undur.

Slíkur dagsrúntur kostar alla jafna 15 þúsund krónur en Hairy Coo býður þetta frítt nema þú viljir greiða þeim fyrir af hreinni gæsku. Og þeir gera þetta svo vel að auðvitað gaukar fólk að þeim seðlum í lok ferðar.

Heimasíða Hairy Coo hér.