Skip to main content

Æ tli Ástralía sé ekki svona sirkabát jafn heillandi fyrir forvitna Íslendinga og Ísland er heillandi fyrir forvitna Ástrala. Sem sagt mökkheillandi.

Sidney í Ástralíu er skrambi skemmtileg með margt upp á að bjóða fyrir ferðafólk. En hún er töluvert dýrari en margur heldur.

Veðurfar á heimsmælikvarða ef þú vilt þrúgandi hita 24/7. Heimafólk velflest ljúfara en vorvindar í Grímsey og engum blöðum þarf að fletta til að vita að óvíða er náttúra og dýralíf magnaðra.

Þó stórborgin Sidney sé ekki höfuðborg landsins þá er hún sannarlega drottningin þegar kemur að afþreyingu og þekktum stöðum. Óperuhús borgarinnar líklegast þekktasta kennileiti alls landsins þó mögulega eigi kengúrur og kóalabirnir einhverja heimtingu á þeim titli.

Hafnarsvæði borgarinnar, með hinni geysifallegu Hafnarbrú í forgrunni, er oftar en ekki sú mynd sem gefin er af Ástralíu í fjölmiðlum og skiptir þá litlu hvert tilefnið er. Hin fræga Bondi-strönd þykir með þeim betri í heiminum og ekki nema þrettán ástralskar sápuóperur og þættir sem gerast þar.

Miklu fleira mætti telja til en meginatriðið er þó það að Ástralir flestir eru jafnvel vinsamlegri en Bandaríkjamenn gagnvart erlendu ferðafólki. Ekkert er of mikið vesen og enginn sýnir skot og skæting ef ferðafólk þarf aðstoð eða upplýsingar. Ekki einu sinni við hið fræga Óperuhús.

Að því sögðu þá kemur það mörgum í opna skjöldu hversu dýrt er að þvælast um í landinu og hvergi dýrara en í Sidney. Það er fokking fokk dýrt.

Svona til að gefa netta hugmynd: skitinn McDonalds borgari skjagar í fjórtán hundruð kall, bjórglas á vinsælum bar auðveldlega þúsund krónur, kaffibolli rokkar milli 600 og 900 krónur og máltíð fyrir tvo á meðalgóðum veitingastað án áfengis kostar vandræðalaust átta til tólf þúsund þúsund krónur án víns.

Með öðrum orðum: ekki svo langt frá verði á sömu hlutum á farsæla Fróni hinu megin á hnettinum.

Endilega heimsóttu þetta merkilega land en endilega hafðu budduna troðfulla af seðlum eða feita aukaheimild á kortinu. Peningar hverfa hér hraðar en íslenskir útvegsmenn koma fjármunum til Lúxemborgar.

Love Every Second of Sydney Flow Motion from Destination NSW on Vimeo.