Skip to main content

M annskepnan er skrýtið fyrirbæri. Við erum mörg svo skilyrt og ósjálfstæð að við förum sjálfkrafa í raðir í bakaríum jafnvel þó engar séu merkingar um að fara í röð. Okkur er mörgum mikið í mun að setja skilrúm á færiband í verslunum svo afgreiðslufólkið ruglist nú alls ekki á brauðinu okkar og hangikjöti mannsins á eftir. Og okkur dettur alltof sjaldan í hug að heimsækja staði sem alls ekki finnast í bæklingum ferðaskrifstofa.

Talið er að 1400 villtir úlfar finnist enn á Ítalíu. 1200 þeirra í fjöllum Abruzzo. Meyst/Adventure4ever.com

Það er eins og það er. Enginn vill vera öðruvísi því þá rignir eldi og brennisteini frá vinum og ættingjum. Öllum „líður stórkostlega“ þó rannsóknir og raunveruleikinn sýni annað. Eða hefurðu tekið eftir hversu margir eru brosandi hamingjusamir að versla í matinn seinnipart dags á Íslandi?

Það ætti að öllu eðlilegu að vera þokkalega ljúfur tími. Við mörg búin að vinna og þrátt fyrir netta þreytu og ógeð á starfinu þá bíða yndisleg börnin eða ástfanginn makinn og heilt kvöld framundan af dúlleríi með ástvinum. Við ættum að vera brosandi út í eitt af tilhlökkun.

En því miður er mikil hending að sjá annaðhvort viðskiptavini eða starfsfólk brosa ó ekki sé nema út í annað seinnipart dags í matvöruverslunum á farsæla Fróni.

Sök sér að vera þreytt og lúin að versla á annatíma og aðeins þrír kassar af þrettán opnir í matvöruversluninni. Sýnu verra að gefa sér ekki tíma til að skoða aðra möguleika en þá sem stóru ferðaskrifstofurnar beina að þér. Sem er meira og minna sama gamla kjötið af sömu gömlu skepnunni.

Þetta skiptir alls engu máli fyrir þann fjölda fólks, og það er fjöldi fólks, sem vill bara sjá sömu bíómyndina aftur og aftur. Fólk sem finnur sinn blett á Spáni eða Ítalíu eða Flórída og fer aldrei neitt annað eftirleiðis. Fólki líður vel á tilteknum stað og hvers vegna vera að taka séns á einhverju ókunnu?

Lítil ástæða til að gera lítið úr slíku. Við erum ekki öll fyrir upplifun og hugsanleg ævintýri. Nema kannski fyrir þá sök að sannað þykir að fólk sem prófar aldrei neitt nýtt deyr fyrr en hinir og lifir leiðinlegra lífi. Það líka hægt að benda á að ef forfeður okkar hefðu hugsað sem svo að óþarfi væri að þvælast eitthvað extra þá væri Ísland líklega ennþá ókunn eyja í ballarhafi. Og Grænland, Ástralía og Norður og Suður Ameríka ef út í það er farið.

Og það er ástæða þess að við ættum að hugsa um túr til Abrezzo á Ítalíu 🙂 En þú hefur líklega aldrei heyrt nafnið áður og gætir líklega ekki giskað á hvar Abruzzo er á korti þótt líf þitt lægi við.

Kíkjum á tvær myndir sem snöggvast.

Flottar myndir ekki satt. Auð en glæsileg strönd annars vegar og snævi þaktir fjallasalir hins vegar. Hverjum dytti í hug að þessar tvær myndir séu úr sama héraðinu á Ítalíu?

Það er þær. Báðar teknar í Abruzzo-héraði sem segja má að sé héraðið hinu megin við Róm eða Lazio-hérað á Ítalíuskaganum. Þar er, ólíkt flestum stöðum á Ítalíu, ekkert mjög frægt. Engin heimsklassa söfn, engir þriggja stjörnu veitingastaðir, ekkert fótboltalið með 20 titla, engar eftirminnilegar borgir sem skilja eftir minningar sem endast til dauðadags, engin síki sem gondólaræðarar sigla um og okra.

Hvað í ósköpunum er Abruzzo þá að bjóða ferðaþyrstum?

Svarið við því er ALLT. Abruzzo er kannski eina hérað Ítalíu sem býður ALLT. Ekki nóg með það heldur býður það allt á algjöru lágmarksverði, sökum þess að hér er ferðafólk tiltölulega fáséð.

Allt þýðir í þessu tilfelli ekta ítalska stemmningu, ekta ítalskar strendur, ekta ítalskar fjallaferðir, ekta ítalskar skíðaferðir, ektra ítalskar fjallaferðir og svo má lengi áfram telja.

Kíkjum aðeins á eitt kort:

Hér sérðu kort af Abruzzo héraði á Ítalíu. Nákvæmlega ekkert sem stingur í augu. Engir þekktir staðir, engar þekktar borgir, engar þekktar strendur. Pescara stærsta borgin og hún fær engin verðlaun. Þetta er klárlega Raufarhöfn Ítalíu ekki satt?

Abruzzo er Raufarhöfn Ítalíu í þeirri merkingu að hingað sækja afar fáir ferðamenn. Fátt hér er á listum ferðatímarita sem „ómissandi“ upplifun. Engin alþjóðleg flugfélög fljúga hingað reglulega. Engir þriggja stjörnu Michelin veitingastaðir á götuhornum.

En hólímóli hvað hér er mikil náttúrufegurð. Sextíu mínútur frá fyrirtaks skíðasvæðum niður á fyrsta flokks strendur og það langt fram á sumar. Verðlag alls staðar miðast við heimakæran Ítalann og ekki hrúgur af erlendu fólki. Engar raðir inn á þó nokkur merkileg söfn á svæðinu og ferðafólk enn það sjaldgæft í fjallaþorpum að vinsamlegt heimafólkið býður gjarnan heim í mat ef það er tekið tali með bros á vör. Reyndu að fá slíkt boð í nágrenni Rómar, Mílan eða Napolí.

Út með þig 😉