Skip to main content

Þ að er kannski að bera í bakkafullan lækinn að reyna að nefna til sögunnar bestu eða skemmtilegustu klúbba eða bari í hinni eiturskemmtilegu Berlín. En við höfum gaman af því að bera.

Gömul sundhöll vettvangur næturlífs par exellens í Berlín um helgar. Mynd SenZATIonell

Gömul sundhöll vettvangur næturlífs par exellens í Berlín um helgar. Mynd SenZATIonell

Tvær ástæður fyrir að slíkir listar missa marks eru annars vegar að fólk er æði misjafnt; það sem einum líkar fer í taugarnar á þeim næsta. Hins vegar sú staðreynd að Berlín er svo mikill suðupottur og kakófónía að það sem er funheitt eina stundina getur orðið þreytt og úrelt fimm mínútum síðar.

Engu að síður eiga þessir fimm staðir hér að neðan það sameiginlegt að hafa viðhaldið sjarma og aðdráttarafli aðeins lengur en fimm mínútur og eru þegar þetta er skrifað enn hátt skrifaðir sem djammbúllur par exellens. Það er meira en að segja það því talið er að fjöldi klúbba og bara í borginni telji hátt í eitt þúsund staði í heildina.

Listann skal þó taka með smá fyrirvara enda við ekki frekar en aðrir prófað næturdjamm á öllum stöðum Berlínar.

♥  WHITE TRASH / AM FLUTGRABEN  Það sem virðist vera miðlungs veitingabúlla á daginn og snemma kvölds tekur stökkbreytingum þegar líða fer á kvöldin og þá auðvitað sérstaklega um helgar. Þá stíga oftar en ekki á stokk þekktir plötusnúðar og breyta andrúmsloftinu umsvifalaust í dúndrandi partí. Annað partí fer í gang í dimmum kjallaranum þar sem djúpir sófar gera fólki kleift að njóta eða kósíast eftir atvikum. Lítill bjórgarður er heldur ekki laus við tónlist og fjör. Vertu bara viss um að borða vel því hér er stemmning fram til sex á morgnana. Heimasíðan.

♥  MONSTER ICHIBAN KARAOKE / WARSCHAUER STRAβE  Prívat og persónulega er enginn úr ritstjórn Fararheill sérstakur aðdáandi karókibara. En þessi er oggupons sérstakur svo ekki sér meira sagt. Ekki aðeins er hér stútfullt velflest kvöld heldur og eru oftar en ekki atvinnumenn að störfum við sönginn. Fólk sem fékk karókígræju í vöggugjöf og er þokkalega þekkt og vinsælt í Berlín. Nokkrir salir svo ef einhver syngur fyrir neðan hellur. Heimasíðan.

♥  BERGHEIN / AM WRIESENER BAHNHOF  Klassík, klassík og klassík. Einn allra besti bar/klúbbur Berlínar og þekktur langt út fyrir borgina. Aðdáendur kalla þetta Kirkjuna og vísar til þess hve merkilegt andrúmsloft hefur tekist að skapa hér. Þó þetta sé teknóklúbbur par exellans er hann nógu góður til að fólk sem ekki þolir klúbbastemmningu finnst líka gaman hér. Staðsettur í gamalli verksmiðju og ólíkt hefðbundnari teknóklúbbum finnst hér alls konar fólk. Virkilega skemmtilegur staður sem erfitt er að lýsa en nauðsynlegt stopp á djamminu. Kjósi fólk aðeins rólegri stemmningu er öllu rólegri bar á eftir hæð. Heimasíðan.

♥  STADTBAD / GERICHTSTRAβE  Aldeilis makalaus staður í Wedding hverfinu. Hugvitssamir hafa hér breytt eldgömlu baðhúsi í djammstað dauðans og aðaldansgólfið er gömul sundlaug. Flísalagt í hólf og gólf, undirgöng og annað það sem tilheyrði gamla baðhúsinu er hér ennþá og skapar ótrúlega umgjörð fyrir djamm fram undir morgunn. Staðurinn nýtist líka undir gallerí á daginn. Mjög skemmtilegt og það jafnvel þó fólk dansi alls ekki. Heimasíðan.

♥  CLUB DE VISIONÄIRE / AM FLUTGRABEN  Ekki næturklúbbur í þeim skilningi heldur lítill og sætur bar með lítið dansgólf, taktfasta tónlist og allra best er að hann er utandyra við einn af skurðum Spree. Ljúfur og rómantískur fram eftir kvöldum á góðviðrisdögum og dágott partí þegar líða fer á nóttina án þess að hér sé alveg pakkað af fólki. Ljúfari verða þeir ekki mikið. Heimasíðan.