F jölmargir Íslendingar hafa heimsótt hina mögnuðu borg San Francisco á vesturströnd Bandaríkjanna á undanförnum árum enda um nokkurt skeið verið boðið upp á beinar flugferðir þangað af klakanum.

Nágrannaborgin Berkeley sögð allt annað en San Francisco. Mynd Peter Thiel

Nágrannaborgin Berkeley sögð allt annað en San Francisco. Mynd Peter Thiel

Elisabeth Ida Ward sem starfað hefur hérlendis um margra ára skeið telur ferðalanga missa af miklu ef þeir gefi sér ekki tíma í San Francisco til að fara yfir hina tilþrifamiklu Bay Bridge brú og heimsækja einnig borgina sem hinu megin sundsins eru. Sérstaklega segir hún það gilda um háskólabæinn Berkeley en þar bjó hún lengi vel og gjörþekkir staðinn.

„Það er mjög mikill munur á San Francisco og Berkeley. Þetta eru nánast tvö mismunandi lönd með misjafnt veður og meira að segja misjafnt andrúmsloft meðal íbúanna. San Francisco hefur kraft New York borgar. Mikill hraði, asi og læti. Berkeley er gjörólík.

Það er reyndar eitt hverfi í San Francisco, Haight-Ashbury, sem segja má að búi yfir sama anda og Telegraph Avenue hverfið í Berkeley en að öllu öðru leyti eru borgirnar svart og hvítt. Í báðum hverfum er að finna töluvert af hippum og heimilislausu fólki en eru frábærir staðir til heimsóknar því þar er alls kyns fólk að selja alls kyns vörur og glingur á heimatilbúnum borðum eða teppum undir beru lofti. Telegraph Avenue er þó ívið meira fyrir ferðamenn.

Ég mæli með að þeir Íslendingar sem heimsækja San Francisco og hafi ekki bíl til umráða eigi undantekningarlaust að taka sér far með lestarkerfinu, BART, til Berkeley stöðvar. Frá stöðinni er stutt ganga að háskólasvæðinu sem er vafalaust eitt af fallegustu háskólasvæðum í Bandaríkjunum öllum með lækjum, gömlum trjám og tilþrifamiklu Aðalbókasafninu sem byggt var í grískum stíl. Ekki síður er sjón að sjá útsýnið frá Bell turninum á háskólasvæðinu. Við enda háskólasvæðisins tekur Telegraph Avenue við og er göngutúrinn vel þess virði og auðveldur.

Þeir sem eru með bílaleigubíl ættu kannski fremur að heimsækja Muir Woods þjóðgarðinn eða bæinn Santa Cruz til suðurs af San Francisco ef þeir vilja taka dagsferðir út frá borginni. Engu að síður er svo margt að sjá bæði í San Francisco og í Berkeley að fólk ætti að taka rúnt með BART til að sjá markverðustu staðina. Ekki síst ef aðeins er dvalist í San Francisco í skamman tíma.

Ef ég ætti að nefna nokkra óvenjulega og forvitnilega staði í Berkeley fyrir utan háskólasvæðið og Telegraph Avenue dettur mér í hug Rósagarðurinn, Berkeley Rose Garden, við Euclid götu en þaðan er æðislegt útsýni yfir allan San Francisco flóann. Veitingahúsið International House Cafe við enda Bancroft strætis er glæsileg bygging í spænskum stíl og útsýni þráðbeint yfir Golden Gate brúna.

Tveir matsölustaðir með svona Hlöllabátayfirbragði eru Top Dog og Blondies Pizza sem búa báðir yfir sérstöku andrúmslofti. Á Telegraph Avenue er að finna Amoeba Music með tonn af eldri vínilplötum og þeir sérhæfa sig í neðanjarðartónlist hvers konar. Síðast en ekki síst er Jupiter’s Beer Garden sem er eins og nafnið gefur til kynna bjórgarður með stóru útisvæði og logandi varðeldi og þeir brugga sína eigin sérstöku bjóra.“