Sök sér að vera með allt niðrum sig þegar ein vél dettur út sökum bilunar. Sýnu verra að heimta hærra gjald fyrir börn en fullorðna.
Það er Wow Air Skúla Mogensen sem virðist með allt niðrum sig og far í brók í þokkabót þessi dægrin. Mikil reiði fólks vegna sólarhrings seinkunar flugs frá Kanarí vegna bilunar og upplýsingagjöf á pari við stjórnvöld í Norður Kóreu. Sem á þó að segja sig sjálft því Wow Air keyrir allan sinn flota 24 tíma sjö daga vikunnar og nákvæmlega ekkert má út af bregða. Lesa má nánar um það hér.
Í stóra samhenginu er þó sýnu verra að fara fram á að börn greiði HÆRRA gjald fyrir flug en fullorðið fólk eins og Ásgerður Hafsteinsdóttir komst að og spyr út í á fésbókarsíðu flugfélagsins. Eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti datt hún niður á flug fyrir sig fram og aftur fyrir 15.768 krónur. En tveggja ára barni hennar gert að greiða 16.403 krónur fyrir sama pakka. TVEGGJA ÁRA!!!
Til að bæta gráu ofan á svart kom þjónustudeild flugfélagsins af fjöllum og vildi vita hvert umrætt flug hefði verið. Eins og þjónustuver flugfélags eigi ekki að vita upp á hár hvert verið er að heimta hærra gjald af 24 mánaða gömlum börnum en fullorðnu fólki.
Eitthvað er á góðri leið með að rotna hjá Skúla og félögum þessa síðustu og verstu.








