H eilt yfir er Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna ekki ýkja merkilegt pleis. Fólk almennt dónalegt, verslanir fokdýrar og enginn labbar hér mikið án þess að hitta fyrir einhvern af þeim þrettán þúsund einstaklingum sem eru heimilislausir. En svona ef þig vantar ástæðu til að heimsækja er Jimi Hendrix þess virði.

Kannski besti gítarleikari heims fyrr og síðar er grafinn í fátækrahverfi í úthverfi Seattle.
Héðan er auðvitað beint flug til Seattle með Icelandair og hefur verið um langa hríð og verður líklega áfram þegar Covid-19 syngur sitt síðasta. Varla svo að skilja að Seattle sé einhver draumaborg Íslendinga enda er Icelandair að miða það flug við ríka íbúa bandarísku borgarinnar.
Ekki svo að skilja að Seattle sé leiðinleg. Hún hefur séð betri tíma og ekki sést í fljótu bragði að velgengni Microsoft og Amazon hafi breytt borginni til hins betra. Þvert á móti er það líklega ástæða þess að hér er hvergi stigið niður fæti án þess að heimilislaust fólk heilsi upp á þig og það má jafnvel finna nálar og sprautur fíkla á helstu götum borgarinnar. Sem sagt ekki alveg Tenerife.

James, Jimi, Hendrix dó langt fyrir aldur fram. Hann hvílir hér um eilífð.
Þrátt fyrir depurð og drep víða er borgin ekki leiðinleg heimsóknar. Svo lengi sem þú takmarkar heimsóknina við tvo til þrjá sólarhringa og skoðar helstu kennileiti með túristavögnum.
Eitt úthverfi Seattle, sem ekki fær feita dóma á Tripadvisor og enginn ferðamaður heimsækir, er Renton en íbúar þar eru, sörpræs, sörpræs, mestmegnið dökkir á hörund. En við viljum meina að það sé einmitt heimsókn til Renton sem geri heimsókn til Seattle ógleymanlega. Sökum þess að í látlausum kirkjugarði í Renton hvílir einhver magnaðasti gítarleikari sem lifað hefur: Jimi Hendrix.
Hann á skilið heimsókn ef þú spyrð okkur 😉