Mánuður er síðan fyrstu flugmennirnir hófu þjálfun sína á nýjustu afurð Boeing verksmiðjanna, Dreamliner vélina, en fyrstu slíku vélarnar hefja farþegaflug með haustinu hjá japanska flugfélaginu All Nippon Airways.
Eins og mikið var gert úr á sínum tíma var Icelandair með allra fyrstu flugfélögunum til að panta slíkar vélar árið 2005 en þá var ráðgert af hálfu Boeing að afhending fyrstu vélanna hæfist árið 2010. Tafir hafa orðið á því en nú sér fyrir endann á þeim og nú verða fyrstu Boeing Dreamliner 787 afhentar í haust.
Fararheill óskaði upplýsinga hjá Icelandair hvort teknar hefði verið ákvarðanir um þær tvær Dreamliner vélar sem flugfélagið pantaði fyrir sex árum síðan en svo er ekki. Ekki munu vera áform um að taka þær vélar inn í leiðakerfi flugfélagsins að svo stöddu en ekki er ljóst af svari upplýsingafulltrúa félagsins hvort hætt hefur verið við kaupin eða hvort afhendingu hafi aðeins verið seinkað.
Er enda töluverður munur á Icelandair í dag og þegar flugfélagið var rekið undir merkjum FL Group sem rekið var á þeim tíma af Hannesi Smárasyni en síðar hefur ítrekað komið í ljós að sá vissi lítið í sinn haus um rekstur flugfélags.






