Efist einhver um þá algleymis upplifun sem hægt er að hafa í gamaldags Trabant á ferð um Berlín í Þýskalandi ætti pistill Bjarna Harðarsonar, bóksala og fyrrum þingmanns að breyta því áliti. Bjarni beinlínis missir sig af gleði og fögnuði.

Bjarni hafði kannski ekki þessar tvær sér við hlið á rúntinum í Berlín en skemmti sér konunglega engu að síður. Mynd Trabi-safari berlin

Bjarni hafði kannski ekki þessar tvær sér við hlið á rúntinum í Berlín en skemmti sér konunglega engu að síður. Mynd Trabi-safari berlin

Fararheill.is greindi frá fyrir nokkru að þær gerist sífellt vinsælli ferðir um Berlín á Traböntum þeim er Austur Berlínarbúar óku um á fyrir fall múrsins 1989 og gátu ekkert annað.

Allmargir slíkir Trabantar voru ennfremur til hérlendis en þóttu aldrei sérstaklega góðir né þægilegir.

Þeir eru ekkert skárri í Berlín þó óneitanlega séu göturnar þar betri en Bjarni bóksali hefur sjaldan upplifað annað eins í pistli sem hann ritar á heimasíðu sína.

„En Trapant safari sem þar er nú boðið uppá við Checkpoint Charlie er slík lífsreynsla, slík menningarleg og andleg endurnýjun, slík upphefð að ekkert tekur slíkri fram nema ef vera skyldi að eiga sinn eigin Trapant.

Vitaskuld er díalektíska tvískipting mannheima margvísleg en mestu varðar að heiminum deila saman þeir sem átt hafa og elskað sinn Trapant og þeir sem hafa það ekki. Milli þessara hópa er regindjúp.

Sjálfur er ég svo ríkur að hafa átt tvo Trapanta og aldrei náð mér til fulls af þeirri bitru afturför að þurfa síðan að aka vestrænum og japönskum auðvaldskerrum sem eru ómarkvissar, sálarlausar, heimskar og jafnast í fegurð á við silfurskottur.

Það varð mér því opinberum þegar konan mín nefndu í framhjáhlaupi okkar næstsíðasta dag að hér væri rekið fyrirtæki sem byði upp á Trapantsafari um borgina. Allt hér originalt, reykurinn, lyktin, hægindin, reisnin og hvarvetna sem við ókum var okkur veifað og af okkur teknar óteljandi filmur og ljósmyndir.“