Skip to main content

H vort sem við erum því fylgjandi eður ei er það staðreynd að sífellt fleiri bætast í þann hóp sem sér nekt ekkert til að skammast sín fyrir. Sannast þetta á síauknum fjölda nektarstranda víðs vegar um heiminn auk aukins fjölda ýmissa uppákoma víða sem eingöngu eru ætlaðar berrössuðum.

Þessi ágæta strönd á St.Barts er einn þekktari nektarstranda heims.

Þessi ágæta strönd á St.Barts er ein þekktasta nektarströnd heims.

Eins og með allt annað undir sólinni sýnist sitt hverjum um hvað telst vera góð eða skemmtileg nektarströnd. Hlutir eins og sjávarhiti, stemmning, félagsskapur og afþreying hlýtur að ráða miklu um hvort strandlíf er skemmtilegt eður ei. Engu að síður er hér listi yfir þær bestu samkvæmt lesendum ferðavefsins Matador en hafið í huga að þar er að mestu um Bandaríkjamenn að ræða og tekur listinn mið af því.

♥  Little Beach, Maui, Hawaii – Yfirvöld á Hawaii gerðu sér fyrir löngu ljóst að peningar nakinna ferðamanna eru ekki síðri gjaldmiðill en hinna og hefur lengi mátt þvælast um á þessari ákveðnu strönd eins og þú kemur af kúnni. Óþarfi að minnast á hitastig og sjávarhitann enda hvoru tveggja fullkomið auk þess sem ströndinni er haldið hreinni og fínni ekki síður en öðrum almenningsströndum á eynni. Heimasíðan.tor

♥  Wreck Beach, Vancouver, Kanada – Hugmyndin um nektarströnd í Vancouver er svipuð og nektarströnd í Nauthólsvík; ískalt. Engu að síður láta þúsundir sig hafa það og njóta víst vel enda átta kílómetra sandströndin við mynni Fraser ár stórkostleg þó Kyrrahafið á þessum slóðum sé í það kaldasta. Fjölmargar uppákomur yfir sumartímann. Heimasíðan.

♥  San Onofre Beach, Orangesýslu, Kaliforníu – Kalifornía hefur loftslagið og strendurnar til að strípilingast og það nýta þúsundir sér á þessari ströndu. Ekki á að koma á óvart í þessu himnaríki lögfræðinga að afturhaldssamir íbúar reyndu ítrekað að fá lögbann á nekt á ströndinni en dómari féllst ekki á rök þeirra. Enn er þó verið að reyna enda algjör skandall að sjá nakið fólk njóta sín í fjarska. Heimasíðan.

♥  Cap´d Agde, Vermeille, Frakklandi – Ein elsta og vinsælasta nektarströnd heims og ólíkt öðrum slíkum þá er Cap´d Agde bærinn sjálfur afar slakur og samkvæmt þeim er reynt hafa er í góðu lagi að kaupa mjólkina í kjörbúðinni eða súpa bjórinn á barnum án þess að vera í neinni spjör. Einn hluti þessarar strandar sérstaklega tileinkaður „fjörmiklu“ fólki. Hugsi nú hver sitt. Heimasíðan.

♥  Haulover Beach, Miami, Flórída – Ekki nektarströnd að fullu þar sem þarna mega allir njóta sín fataðir eður ei. Engu að síður ein af örfáum ströndum stórborgar þar sem ekki er amast við nekt og það nýta þúsundir sér hvern sólardag. Strandverðir að störfum og grill og leiktæki og allt eins og best verður á kosið.

♥  Hanlan Beach Point, Toronto, Kanada – Efsti hluti þessarar strandar er tileinkaður nektinni og afar vinsæll hjá borgarbúum. Reyndar hafa einhverjar deilur risið þar sem hommar hafa gert ströndina að sínum samastað en engu að síður næstvinsælasta nektarströnd Kanada. Á ströndina er aðeins komist með ferju frá Toronto. Heimasíðan.

♥  Samurai Beach, Port Stephens, Ástralíu – 120 kílómetra frá Sidney er þessi vinsæla strönd nektarelskenda. Þar eru árlega haldnir Ólympíuleikar nakinna og fer miklum sögum af skemmtanagildi þessa.  Veðrið eðlilega aldrei minna en stórkostlegt.

♥  Anse de Grand Saline, St.Barts, Karabíska hafinu – Löngum leikparadís ríkra Frakka enda frönsk nýlenda en vaxandi áhugi náttúrusinna hefur leitt af sér að minnst þrjár fyrsta flokks nektarstrendur má finna á eynni. Þó með þeim formerkjum að engin er þjónustan því ferðamannaiðnaður þekkist í afar litlum mæli.