A llir kannast við vandamálið hvað gefa á þeim sem allt eiga. Það er lítilvægt vandamál þegar komið er í einhvern merkilegasta útimarkað heims, Chatuchak markaðinn í Bangkok í Tælandi, en þar snýst vandamálið við. Hvað á að kaupa á markaði þar sem allt fæst?

Stærsti markaður Tælands er Chatuchuk í Bangkok en ranghalarnir þar eru endalausir. Hér versla 200 þúsund manns hvern einasta dag sem opið er. Mynd abeppu

Stærsti markaður Tælands er Chatuchuk í Bangkok en ranghalarnir þar eru endalausir. Hér versla 200 þúsund manns hvern einasta dag sem opið er. Mynd abeppu

Efist þú þá skaltu bara prófa. Þetta er ekki stærsti útimarkaður heims fyrir ekki neitt. Með yfir sautján þúsund sölustanda er ekkert sem þig vantar sem þú finnur ekki hér. Plús ýmislegt sem þig vantar ekki.

Úrvalið?

Matur af öllum mögulegum toga. Öll möguleg og ómöguleg  lyf sem framleidd hafa verið. Bleikir kjúklingar. Kasmír ull í tonnatali, minjagripir auðvitað og alls kyns ónothæft drasl. Nýjustu tölvuleikir, tónlist og kvikmyndir á 50 kall stykkið. Skartgripir bæði alvöru og falsaðir. Krydd frá öllum heimshornum. Hlutar af dýrum í útrýmingarhættu eða dýrin í heild sinni. Te, kaffi, föt, gæludýr. Listinn er næsta endalaus.

Nema hvað margt það, og kannski allt, sem selt er á þessum afar skemmtilega og mjög svo lifandi markaði eru falsaðar vörur. Það er að segja ef það er erlent. Levy´s buxurnar á 300 krónur eru líklega ekki framleiddar af Levy´s. Nýja Windows stýrikerfið fæst fyrir smáura og alls ekkert víst að virki í raun. Litaðir kjúklingar eru í alvörunni til og hafi einhver fengið nóg af hefðbundum lit kjúklingakjöts er ráð að prófa rauðan kjúkling eða gulan.

Allt er til sölu og allt er hægt að fá sem beðið er um. Sé það ekki til bakvið er hlaupið eftir því á örskotsstundu. Það er hér sem nýir tölvuleikir, forrit eða kvikmyndir finnast til sölu jafnvel áður en sala er hafin í vestrænum löndum eða frumsýning farið fram. Magnaðar eftirlíkingar af frægum málverkum eins og af Mónu vinkonu okkar Lísu í Louvre fást hér fyrir þrjá íslenska þúsundkalla. Nýr iPad, en sennilega ekki iPad, kostar allt niður í fimm þúsund krónur.

Hundar á útsölu. Þessi einstaklingur bauð 70% afslátt af þeim 30 hundum sem hann hafði í bás sínum. Mynd AE

Hundar á útsölu. Þessi einstaklingur bauð 70% afslátt af þeim 30 hundum sem hann hafði í bás sínum. Mynd AE

Þrátt fyrir sífelld inngrip lögreglu gengur ekkert að loka fyrir þennan markað né neina aðra álíka í landinu. Slíkir markaðir eru nánast alls staðar í þéttbýli og oft fleiri en einn. Í Bangkok einni eru ellefu slíkir víða um borgina en enginn eins risastór og Chatuchak.

Gallinn þó alltaf sá að líkurnar eru meiri en minni að dýrari vörur hér séu meira og minna allar falsaðar og skömmu eftir heimkomu kemur fram bilun, rifa eða aflitun. Fyrsta orðið sennilega líka það rétta yfir Chatuckak markaðinn. Algjör bilun!

En skemmtilegri bilun er vart hægt að taka þátt í og jafnvel þó verslunin sé alveg látin eiga sig þá er sannarlega upplevelse að staldra þar við einn daginn og virða herlegheitin fyrir sér í rólegheitum. Enginn skortur er á litlum kaffihúsum eða pöbbum á svæðinu og stórkostlega gaman að sitja bara og vitna herlegheitin.

Markaðurinn er formlega opinn á laugar- og sunnudögum. Stöku stallar eru þó opnir lengur. Best er að mæta eins snemma og hægt er því yfir hádaginn koma hátt í 300 þúsund manns á markaðinn og eins og nærri má geta er það á stundum full mikið af því góða.

Til umhugsunar: Æði margt á Chatuchak markaðnum glepur augu og mannfjöldi er þar mikill. Passið veski ykkar og vasa öllum stundum því veskjaþjófar eru jafn margir og sölustandarnir á markaðnum. Þeir sæta færi hvenær sem færi gefst og eru stundum fleiri en einn saman. Best er að skilja veskið eða mesta fjármuni á hótelinu meðan farið er á markaðinn.