S iglingar um Níl hafa um árabil notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna og sífellt stærri ferjur og skemmtiferðaskip flutt fleiri og fleiri farþega á sífellt skemmri tíma upp og niður ána. En nú eru hlutirnir að breytast.

Hefðbundnir feluccas seglbátar njóta vaxandi vinsælda meðal ferðafólks í Egyptalandi. Mynd epic

Hefðbundnir feluccas seglbátar njóta vaxandi vinsælda meðal ferðafólks í Egyptalandi. Mynd epic

Vakning hefur orðið í ferðaþjónustu hér um slóðir og sífellt fleiri kjósa nú siglingu í gamaldags en hefðbundnum feluccas sem sumir hafa þýtt sem skonnortur þó ekki sé það góð þýðing á einföldum seglskútum. Feluccas eru seglbátar sem heimamenn við Níl hafa notast við um aldaraðir til að komast milli staða og ekki síður veiða sér í soðið. Tiltölulega einfaldir viðarbátar en þeir stærstu ekki svo frábrugðnir smærri skonnortum.

Þessum bátum hefur fækkað ört á ánni með tilkomu ferja og mótorbáta sem fljótari eru í ferðum en góðu heilli fer fjölgandi þeim ferðamönnum sem einmitt langar að upplifa rólegri ferðamáta en svo. Það virðist vera alþjóðleg vakning í rólegum ferðum ekki ósvipað því sem gerst hefur með mat.

Fer því fjölgandi þeim fyrirtækjum í Egyptalandi sem bjóða eingöngu siglingar í feluccas og það bæði styttri túra og upp í dagsferðir. Einstöku aðilar hafa líka bætt smá lúxus við einfalda báta sína og bjóða jafnvel káetur um borð með sturtu og helstu nauðsynjum. Þá reyndar kallast bátarnir ekki feluccas lengur heldur dahabeyas og er sumir þeirra vélknúnir líka.

Stóri plúsinn við feluccas er þó ekki hvað er í boði um borð heldur hvoru tveggja friðurinn sem fæst með seglskútu og hins vegar frjálslegri ferðamáti skútueigendanna. Það hefur ávallt verið hægt að stoppa hvar sem mönnum sýnist og hægt er og það er enn í boði ef nógu margir um borð kjósa svo. Ferðaáætlunin er þannig ekki geirnegld niður og það kunna margir ferðamenn að meta.

Stöku ferðaskrifstofur selja ferðir með dahabiyya skonnortum og er jafnan hægt að fá bestu tilboðin frá breskum ferðaskrifstofum. Íslenskar eiga þó líka auðvelt með að setja saman slíka ferð sé þess óskað.

Hafir þú hug að panta beint frá bónda ef svo má að orði komast eru hér tvö egypsk fyrirtæki sem sérhæfa sig í slíkum ferðum. Reyndin er þó sú að mun lægra verð fæst fyrir túr með því að prútta við bátseigendur á staðnum en að panta gengum netið. Engar áhyggjur af því að finna slíka aðila þegar á staðinn er komið. Þeir finna þig 🙂