S úkkulaði frá Lindu eða Godiva? Ef þú kýst hið fyrrnefnda geturðu hætt að lesa hið snarasta enda hefurðu ekkert vit á súkkulaði. Þið hin fáið að vita hvar besta súkkulaði í Barcelónuborg er að finna.

Má bjóða þér alvöru súkkulaði? Mynd Cacao Sampaka

Má bjóða þér alvöru súkkulaði? Mynd Cacao Sampaka

Þó súkkulaði sé almennt meira heillandi heima í sófa þegar kafaldsbylur dynur fyrir utan en í hita og sumaryl getur enginn alvöru sælkeri stillt sig um mola og mola hvar sem hann er í heiminum. Og hver sá sem villist inn í verslun Cacao Sampaka á röltinu um Barca þarf að glíma við valkvíða dauðans. Þar aðeins að finna einar tólf hundruð tegundir af handgerðum súkkulaðimolum og bitum úr topp hráefni. Allt skreytt eins og bera eigi á borð fyrir konung.

Ekki þarf heldur að örvænta ef súkkulaði er ekki alveg á óskalistanum. Hér fæst líka heimatilbúinn ís sem nýtur svona viðlíka hylli borgarbúa hér og Brynjuísinn gerir á Akureyri.

Að allt hér inni sé ljúffengt með afbrigðum kemur kannski minna á óvart þegar þú veist hver súkkulaðimeistarinn er. Sá heitir Albert Adria og er bróðir hins fræga spænska kokks Ferran Adria sem gerði garðinn frægan á veitingastaðnum El Bulli.

Annars er ekki heiglum hent að lýsa dýrindis súkkulaði í neinum orðum. Það verður bara að prófa og ef við höfum rangt fyrir okkur skulum við éta hatta okkar og súkkulaði með.

Cacao Sampaka finnst við Carrer del Consell de Cent (sjá kort). Það er næsta gata við hina frægu byggingu Gaudís; Casa Battlló.