Y firgefnar námur hafa alla jafna ekki átt mikið upp á pallborðið meðal ferðalanga í heiminum enda oftar en ekki djúpar, dimmar og skítugar fyrir utan þá staðreynd að oftast er ekki mikið að sjá.

Með ólíkindum fallegt 300 metrum undir yfirborði jarðar.

Hefðbundin kapella? Já, fyrir utan að vera 300 metrum undir yfirborði jarðar.

En öðru máli gegnir um stórar og miklar saltnámur við borgina Wieliczka í úthverfi Kraká í Póllandi. Þar er að finna, 330 metrum undir yfirborðinu, stórkostleg listaverk sem verkamenn ára og alda hafa hoggið til að gamni. Staðurinn er ómissandi stopp sé fólk á ferð um þessar slóðir.

Ristjórn Fararheill gerði reyndar þau mistök í fyrstu ferð til Kraká að sleppa ferð hingað en úr því hefur verið bætt og upplifunin er enn ógleymanleg.

Saltnámurnar í Wieliczka eru heimsþekktar fyrir þá tugi skúlptúra, einar þrjár kapellur og síðast en fráleitt síst; heila dómkirkju. Allt hoggið hörðum höndum gegnum tíðina af lærðum og leiknum verkamönnum sem hér unnu erfið verk á þessu mikla dýpi sem samsvarar næstum fimm Hallgrímskirkjum raðað ofan á hvor aðra.

Ekki er nóg með að dýpið sé mikið heldur er náman bærilega löng líka og hægt að eyða hér nokkrum árum að kanna hvern krók og kima á öllum 287 kílómetrum hennar. Til að setja það í samhengi er það gróflega sama veglengd og milli Akureyrar og Seyðisfjarðar.

Enginn þarf reyndar að leggja það á sig enda náman svipuð meira og minna ef frá eru talin listaverkin miklu. Þeim er ekki hægt að lýsa með orðum svo vel sé en fyrir utan hversu glæsileg verkin eru er óhætt að furða sig á þeim einhug sem verið hefur meðal þeirra sem verkin gerðu og notuðu til þess skammt naumaðan frítíma sinn. Sem þýðir að þessir menn hafa ekki séð dagsljós vikum eða mánuðum saman.

Verkin eru öll á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og eiga þar sannarlega heima eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Til umhugsunar: Erindreka ritstjórnar gafst kostur á að eyða nótt á nýju hóteli, ef svo má að orði komast, því það hótel er líka neðanjarðar í sömu námu. Áhugasömum gefst færi á dvelja í sérstökum hótelgöngum sem eru mun ofar en náman sjálf eða á aðeins 125 metra dýpi. Heimamenn segja dvöl hér flestra meina bót því loftið sé ómengað og efnasamsetning loftsins hér sé góð fyrir sál og líkama.  Fararheill getur staðfest að fyrir utan að engir voru gluggarnir var ekki leiðinlegt að prófa nótt og þó hótelið fái engar fimm stjörnur þá er heill leiktækjasalur hér líka svo engum þarf að leiðast þó um andvökunótt sé að ræða. Hótelálman, Slowacki Chamber, er aðeins önnur af tveimur stöðum sem kostur gefst á að dvelja næturstund eða lengur í námunni. Önnur slík álma, Stable Chamber, þar sem áður fyrr voru geymdir vinnuhestar er einnig orðið að hóteli. Sú álma er enn neðar á 135 metra dýpi.