N afn Vila Franca do Campo er hvorki frægt né auðfundið. Hvorki í annálum sögunnar né á nútímalegu internetinu. Bærinn atarna væri þó sennilegast höfuðborg hinna portúgölsku Azoreyja í dag ef ekki hefðu komið til hörmulegar náttúruhamfarir á eynni Sao Miguel árið 1522.

Lítill og fallegur bær á eynni Sao Miguel á Azoreyjum. En ekki er allt sem sýnist. Mynd Gaspar Avila
Kunnugir vita sem er að höfuðborg Azoreyjanna portúgölsku í miðju Atlantshafinu, eða Asóreyja eins og innlendir málfræðingar vilja brúka, er Ponta Delgada sem fræðast má um í vegvísi okkar hér. Færri gera sér ljóst að Ponta Delgada væri alls ekki höfuðborg þessara yndislegu eyja nema vegna þess sem gerðist snemma morguns árið 1522 í fimm þúsund manna bæ 20 mínútur til austurs af Ponta Delgada.
Þá varð bærinn Vila Franca do Campo, sem á þeim tíma var langfjölmennasta þéttbýli á Azoreyjum öllum, miðpunktur verstu náttúruhamfara sem hafa gengið yfir Azoreyjar frá því landnám hófst í eyjunum. Eldsnemma morguns þann 20. október árið 1522 skók mikill jarðskjálfti eyjuna og áður en nokkur kjaftur gat stunið upp svo miklu sem einu heibabbílúlla gróf gríðarmikil aurskriða bæinn eins og hann lagði sig. Á augabragði hurfu 99,9 prósent allra bygginga á staðnum og aðeins tvö íbúðarhús og ein kirkja stóðu uppi. Nánast allir fimm þúsund íbúar bæjarins létu lífið.

Hvorki stór né falleg er Igreja Matriz de Vila Franca do Campo dómkirkja bæjarins. En sú byggð á rústum þess sem var eitt af þremur húsum sem eftir stóðu á sínum tíma. Merkilegt líka að sjá má far eftir fallbyssuskot sjóræningja á einni hlið kirkjunnar.
Þykkur aurinn og hnullingarnir sem með komu reyndust svo erfiður viðureignar fyrir eftirlifendur og björgunarfólk að björgunaraðagerðum var hætt nánast áður en þær hófust. Töldu menn að minnst fimm metrar væru niður á þök ystu íbúðarhúsanna sem stóðu í bænum þegar hamfarirnar dundu yfir. Líkamsleifum fimm þúsunda var leyft að hvíla í friði á sínum tíma.
Spólum nú áfram fimm hundruð ár eða svo. Vila Franca do Campo er enn til staðar þó þar búi nú aðeins rúmlega tólf hundruð manns. Bærinn hvorki sérstaklega fallegur né eftirminnilegur með undantekningu þó. Hér getur varla nokkur maður stungið niður blómi í garð eða grafið fyrir brunni án þess að mannabein finnist um leið.
Sjálfsagt stopp á vappi um Sao Miguel en kunni menn ekki söguna situr lítið sem ekkert eftir að túr loknum.