Höfuðborg stærstu eyju Azoreyja, São Miguel, er Ponta Delgada. Hún er jafnframt „mesta“ höfuðborgin því þrjár mismunandi borgir á eyjunum eru „höfuðborgir“ hvers svæðis um sig.

Ponta Delgada virðist ekki stór á korti og þaðan af síður úr lofti við komu en flugvöllur eyjunnar São Miguel er aðeins spottakorn, rúmlega þrjá kílómetra, frá borgarkjarnanum og í aðflugi má sjá borgina alla eins og hún leggur sig.

Borgin leynir þó á sér. Miðborgin er við höfnina upp frá Avenida do Mar og hér finnast elstu byggingar borgarinnar og eyjanna allra. Hér enginn skortur á hótelum og gistihúsum heldur því túrismi er afar mikilvægur eyjaskeggjum. Vegur túrisma hefur vaxið jafnt og þétt hin síðari ár en er þó fjarri því yfirþyrmandi enn sem komið er. Það gæti þó breyst fyrirvaralaust því árið 2015 hófu tvö lággjaldaflugfélög beint flug hingað. Fyrir þann tíma voru ferðir hingað með þeim dýrustu sem hægt var að velja um.

Ágætt er að muna að einu sinni endur fyrir löngu voru Azoreyjur, og São Miguel sérstaklega, mikilvægasta stopp skipa á leið yfir Atlantshafið. Það var sú umferð sem kom eyjunum á kortið og gerði fólki kleift að setjast að hér og lifa af.

Í dag eru eyjaskeggjar duglegir bændur og hér kjöraðstæður til ræktunar á ýmsu sem ekki er hægt að rækta annars staðar í Evrópu. Hér er til dæmis töluvert um ananasræktun, hér er ræktað eina teið í Evrópu allri og Azoreyjar er líka eini staður Evrópu þar sem nautgripir og beljur ganga úti alla daga ársins.

Hvað stemmningu varðar hér í borg þá er þetta dágóð blanda af lítill borg og smábæ. Með því meinum við að vakni fólk snemma morguns hér er enn hægt að heyra hanagal um alla borg frá smábændum skammt frá. Svo er ekki lítið gaman að því að sjá litlar finkur fljúga um allt í nýtískulegri flugstöðinni hér eins og það séu kjörheimkynni fuglanna. Enginn amast þó við.

Til og frá

Aðeins einn flugvöllur er á Sao Miguel og sá er nánast í Ponta Delgada sjálfri. Frá vellinum inn í borgina tekur svo mikið sem fimm til tíu mínútur að fara á bíl en með flugrútu tíu mínútur eða svo. Bílaleigubílar eru líka fáanlegir hér. Algengt verð per dag fyrir meðalbíltík er um 30 til 40 evrur.

Með leigubíl kostar túrinn inn í borgina milli 10 og 15 evrur en langvænlegast er að taka flugskutluna, Aerobus, og kaupa far báðar leiðir. Með þeim hætti kostar túrinn aðeins 350 krónur hvora leið fyrir sig. Farþegar fá líka skutl að hóteldyrum.

Nokkuð auðvelt er að keyra í Ponta Delgada. Hún er ekki mjög stór en á móti kemur að götur margar eru afar þröngar og nóg framboð af einstefnugötum. Það er því vissara að fá bíl með GPS ellegar leggja leiðina vel á minnið.

Lítil sem engin þörf er á samgöngutæki innan Ponta Delgada. Hún er nógu lítil til að tveir jafnfljótir nægja. Hér ganga þó smávagnar til og frá hinum ýmsu hverfum og það auðvelt leið til að skoða sig frekar um kjósi fólk slíkt.

Til að komast til annarra bæja hér á eynni þarf að halda til Avenida do Mar við höfnina. Þaðan bjóða þrjú rútufyrirtæki ferðir til bæja hingað og þangað. Það ágæt leið til að skoða en þó takmörkuð því ferðir eru

Loftslag og ljúflegheit

Yfir engu að kvarta hér á bæ. Hitastig á ársgrundvelli er um 14 gráður. 10 til 16 yfir vetrartímann og 16 til 22 gráður yfir sumartímann. Hér nýtur sólar líka ársins hring en yfir vetrarmánuði getur dregið fyrir sólu og rigning ekki óalgeng heldur. Sjávarhiti heldur ekkert til að kvarta yfir eða kringum 20 gráður að meðaltali á ársgrundvelli.

Söfn og sjónarspil

Sannast sagna er engin ósköp að sjá í borginni. Hér eru vissulega margar byggingar komnar vel til ára sinna en þær eiga það flestar sameiginlegt að vera heldur dimmar og drungalegar og trekkja takmarkað.

>> Dómkirkjan (Matriz de São Sebastião)  –  Ekki eiginleg dómkirkja en elsta kirkja borgarinnar þó ekki sé hún stærri en aðrar kirkjur hér í borg. Hvorki mikilfengleg né ýkja falleg enda velflestar eldri byggingar hér í fremur minimalískum stíl enda langt að sækja byggingarefni. Þessi kirkja var byggð á sextándu öld en hefur fengið andlitslyftingu nokkrum sinnum síðan. Hún er oftast opin og sjálfsagt mál að kíkja inn.

>>  Borgarhliðin  (Portas da Cidade)  –  Það er ekki mikið eftir af rammgerðum vegg sem varði borgina fyrr á tímum fyrir sjóræningjum og árásum af sjó. Reyndar eru þessi litlu hlið það eina sem eftir stendur en þau vel varðveitt. Praça do Gonzalo Velho.

>>  Borgarvirkið (Forte do São Brás)  –  Gamalt varnarvirki við höfnina sem gert hefur verið upp til fyrri vegs. Virkið sjálft hvorki stórt né mikilfenglegt en forvitnilegt að sjá. Innandyra er sjálfur herinn með sýningu sem hálft í hvoru tengist virkinu. Ekki mjög spennandi sýning en eðalfínt ef drepa þarf tíma. Aðgangseyrir 600 krónur. Heimasíðan.

>>  Carlos Machado safnið (Museu Carlos Machado)  –  Merkasta safn borgarinnar er þetta hér sem skiptist í tvennt. Annars vegar minjar tengdar trú eyjaskeggja og hins vegar listasafn þar sem þekktir listamenn eyjanna eiga verk. Ekkert stórkostlegt en gefur þó innsýn í fyrri tíð og tíma hér. Aðgangseyrir 400 krónur. Heimasíðan.

>>  Kirkja heilags Krists (Igreja do Santo Cristo)  –  Önnur kirkja í miðborg Ponta Delgada er þessi hér við Avenida Roberto Ivens. Þessi ábúðarmikil utanfrá og ágæt innanfrá líka þó ekki standi hún stórkirkjum Evrópu á sporði. Hér inni er eitt mikið og glæsilegt líkneski af Jesú Kristi en það líkneski er dregið fram í dagsljósið einu sinni árlega og borgarbúar ganga um það um götur og torg. Fallegt torg með sérkennilegum trjám beint fyrir framan kirkjuna.

>>  Garður Antonio Borges  (Jardim Antonío Borges)  –  Þó torgin hér séu nokkur falleg fer minna fyrir fallegum görðum. Þessi er langfremstur jafningja og stendur ofarlega í borginni við Avenida Antero do Quental. Frítt inn og ljúfur til að slaka á eftir bæjarrölt.

>>  Strandlengjan  (Avenida do Mar)  –  Borgaryfirvöld hafa á allra síðustu árum gert gangskör að því að bæta strandlengju borgarinnar en fyrir aðeins tíu til fimmtán árum var þar aðeins stór höfn og fólk hélt sig fjarri. Nú hafa verið byggðar túristavænar byggingar meðfram allri ströndinni og vitaskuld með tilheyrandi verslunum og veitingastöðum. Hér finnst líka lítil sjósundlaug og smábátahöfn og hér er mikið líf þegar sólin lætur sjá sig. Að sama skapi er verðlag hér aðeins hærra en á öðrum stöðum í borginni.

Matur og mjöður

Það verður að segjast eins og er að þó töluverður fjöldi veitingastaða finnist í Ponta Delgada og margir bjóði þeir upp á ágæta rétti þá er maturinn almennt í daprari kantinum. Það staðfestist sé rætt við heimafólk hér því þar veltur hver um annan þveran að mæla með tilteknum veitingahúsum annars staðar á eynni. Ekki svo að maturinn sé vondur heldur meira að yfirhöfuð eru réttir eyjaskeggja afar einfaldir og þeir lítt fyrir að dúlla við matinn eða breyta og bæta.

Að því sögðu eru sjávarréttir hér í borg yfirleitt afbragð. Hér veiða menn grimmt og veitingastaðir flestir bjóða upp á raunverulega ferskan fisk daglega. Túnfiskur virðist vinsælasti rétturinn því ekki finnst veitingahús sem ekki býður túnfiskrétt og sverðfiskur er vinsæll líka. Svo má ekki gleyma að þetta eru Portúgalir og þeir elska sinn saltfisk. Slíkt góðgæti fæst víða og með ýmsu móti.

Gera má ráð fyrir að greiða þetta 10 til 15 evrur fyrir dágóðan kvöldverð og sé um dýrt veitingahús að ræða gæti kostnaðurinn hlaupið upp í 18 evrur. Tví- eða þríréttað með víni kostar því manninn gróflega kringum þrjú þúsund krónur eða svo.

Verslun og viðskipti

Ponta Delgada er lítil borg og því ekki um það að ræða að hér séu dúndurverslanir á hverju strái. Nokkur fjöldi sérverslana finnst í miðborginni og þar líka er ein lítil verslunarmiðstöð, Solmar Avenida Center, sem er ekki upp á marga fiska.

Engu að síður státar Ponta Delgada af stórri verslunarmiðstöð á pari við Kringlunna okkar heima. Sú er Parque Atlantico við Rua da Juventude. Merkilega stór og mikil og hér hartnær hundrað verslanir auk skyndibitastaða.

Gróflega má segja að verðlag á vörum hér og á Azoreyjum sé 40 til 50 prósent lægra en almennt í Reykjavík.

Hátíðir og húllumhæ

Allra stærsta hátíðin í Ponta Delgada sem og reyndar á öllum Azoreyjum fer fram fimmta sunnudag eftir páska ár hvert. Festas do Senhor Santo Cristo dos Milagres kallast sú og er tileinkuð Jesú Kristi eins og vænta má. Þá drífa sig allir sem vettlingi geta valdið út á götu til að berja augum líkneski kraftaverkameistarans Krists en það líkneski er borið fram og aftur um götur hér og fólk á eftir. Þetta er dálítið merkileg hefð jafnvel fyrir trúleysingja því götur Ponta Delgada eru skreyttar eftir kúnstarinnar reglum áður en gengið er með kristslíkneskið. Borgin tekur því stökkbreytingum til hins betra.

Önnur fjölmenn hátíð sem einnig tengist trú er Festas do Espirito Santo eða hátíð heilags anda. Sú haldin alla sunnudaga frá apríl og fram til júní. Aftur er hér allt skreytt og fágað en mun smærra í sniðum en fyrrnefnda hátíðin.

Þá er ekki öll sagan sögð hvað trúarhátíðir varðar. Páskahátíðin er æði mikilvæg hér og margir skreyta hús sín og híbýli þann tíma líka.

Líf og limir

Hér þarf fátt að óttast. Heimafólk þokkalega vinsamlegt þó vissulega megi fólk brosa aðeins meira en það gerir. En glæpir eru ekki algengir hér og allra síst gegn ferðafólki enda þeir grunnstoð efnahags og allir gera sér grein fyrir þeirri staðreynd.

Kranavatnið í Ponta Delgada og reyndar á Sao Miguel eyju allri er drykkjarhæft en þó er einn hængur á. Sá hængur að drykkjarvatn hér er mjög mengað af náttúrulegum flúor. Sem er auðvitað það efni í tannkremum sem á að færa tennur allra til betri vegar. Það því algjör óþarfi að pakka tannkremstúbu sértu á leið hingað þó auðvitað sé mikill flúor ekki mjög spennandi til lengri tíma og hvað þá alltaf.

[/vc_message]