Skip to main content

Æ tli það séu margir staðir í veröldinni þar sem finna má næstum eitt hundrað golfvelli í klukkustundar radíus frá einum og  sama punktinum?

Í klukkustundar radíus frá Toronto í Kanada er að finna næstum hundrað golfvelli. Það er mun betra úrval en víðast hvar annars staðar.

Í klukkustundar radíus frá Toronto í Kanada er að finna næstum hundrað golfvelli. Það er mun betra úrval en víðast hvar annars staðar.

Það eru fleiri golfvellir en í eða við Dublin, London, Orlando, Los Angeles, Costa del Sol eða aðra slíka staði þar sem finna má golfvelli á fimm mínútna fresti. Og eflaust kemur einhverjum spánskt fyrir sjónir að þessi fyrrnefndi punktur er borgin Toronto í Kanada.

Eins og sjá má á meðfylgjandi korti er landslagið hér þakið golfvöllum í nánast allar áttir. Kortið tekur rösklega til 60 kílómetra radíuss út frá miðborg Toronto sem þýðir að ekki tekur mikið lengri tíma en klukkustund að aka til þeirra fjærstu.

Vekur nokkra furðu hvers vegna Icelandair sem hingað flýgur reglulega, skuli ekki gera þessum hluta betri skil því hér er hægt að spila frá miðjum apríl og fram í október.

Og ólíkt til dæmis Orlando, sem ritstjórn Fararheill telur eina leiðinlegustu borg heims, er Toronto massa skemmtileg fyrir háa sem lága. Hér er því hægt að spila golf alla morgna og síðdegis og á kvöldin bregða undir sig betri fætinum og versla, borða, drekka eða njóta alvöru stórborgar.

Reyndar eru þessir hundrað vellir ekki hundrað prósent aðgengilegir ferðafólki. Nokkur fjöldi eru lokaðir einkaklúbbar og enn aðrir eru svokallaðir opnir, public, vellir sem fyrst og fremst eru ætlaðir heimafólki. En engu að síður er úrvalið ótrúlegt.

Gróf úttekt leiðir í ljós að vallargjald er svipað hér og til að mynda í suðurhluta Spánar þangað sem margir fara. Hægt er að finna ágæta velli þar sem hringurinn kostar niður í fimm þúsund krónur og upp í sextán þúsund þeir dýrustu sem eru öllum opnir.

Best af öllu er að fái einhver nóg af golfi eina dagsstund er fjölmargt að sjá. Ekki aðeins í borginni sjálfri eins og sjá má á vegvísi Fararheill heldur ekki síður ef aðeins lengra er farið. Þannig er ekki ýkja langt í Niagara fossana frægu og sömuleiðis er ekki nema fimm klukkustunda akstur til Montreal og enn skemmra til Ottawa. Og ekki er veðurfarið hér á sumrin amalegt heldur.


View Golfvellir kringum Toronto í Kanada in a larger map