Skip to main content

H öfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC, er barasta hreint ágæt miðað við allt og allt. Mökkað af glæpum og fátækt en flest slíkt vel utan þjónustusvæðis ferðamanna og fátítt að ferðafólk lenti í slíkum leiðindum.

Illu heilli situr fáviti á forsetastól Bandaríkjanna þessi dægrin en híbýli hans eru þó kostuleg. Mynd Hvíta húsið

Eins og fram kemur í vegvísi okkar um Washington DC er töluvert mikið að upplifa í borginni. Þar helst auðvitað að hér finnast æði mörg af bestu söfnum Bandaríkjanna og nokkur þeirra helstu standa nánast hlið við hlið í National Mall garðinum skammt frá miðborginni.

Ekki er heldur amalegt að skoða þinghús borgarinnar, Capitol, sem er ein fegursta byggingin í borginni og þótt víðar væri leitað. Leiðsögn um þá byggingu er í boði reglulega.

En hvað um hús allra húsa vestanhafs? Geta Jón og Gulla úr Þingeyjasýslu skoðað Hvíta hús forseta Bandaríkjanna? Svarið við því er jákvætt en eins og með allt hjá Kananum hangir flagð á fögru.

Það sem áhugasamir Íslendingar þurfa að gera er að senda skeyti með GÓÐUM FYRIRVARA á sendiráð Íslands í borginni. Sendiráðið getur orðið þér úti um heimsóknarpassa í Hvíta húsið en sá passi gildir aðeins í tilteknar skipulagðar ferðir um húsið. Í þá túra gildir að fyrstu kemur, fyrstur fær, þannig að ef uppselt er á þeim degi sem hentar þá dettur sá heimsóknarpassinn dauður niður.

Eðli máls samkvæmt er vinsælt að heimsækja Hvíta húsið, og áður en fláráðurinn sem situr á forsetastóli nú komst til valda, kom fyrir að Jón og Gulla hittu alsendis óvænt forsetann sjálfan á vappinu í höll sinni. Allmargar frásagnir til af því að hópar í heimsókn hittu fyrir Barack Obama svo dæmi sé tekið.

Ef svo fer að öll púslin falla rétt og þú eða þið komist í heimsókn skal fyrir alla muni ekki taka neitt meðferðis. Hér er engin geymsla fyrir töskur. Engin almenningsklósett svona ef upplifunin fer alveg með blöðruna. Myndataka hvers kyns innanhúss er bönnuð, snjallsímar gjarnan teknir af fólki og ef þú fylgir ekki hópnum hundrað prósent fylgja vopnaðir verðir þér út á nóinu. Maldaðu í mó og lögreglumenn taka við þér og fylgja þér áfram rakleitt á næstu lögreglustöð.

Plúsarnir eru þó nokkrir líka. Túr um Hvíta húsið kostar ekki neitt, saga hússins stórmerkileg, innanstokksmunir víðfrægir og hver veit nema Biden sé kominn úr rúminu fyrir hádegi, rekist á hópinn, og þá getur þú sagt honum persónulega skoðun þína.

Það væri ekki amalegur lokakafli í ævisögunni…

Nánar hér.