D öll er ekki gott og gilt íslenskt orð en það lýsir bænum Ystad á Skáni í Svíþjóð barasta mætavel. Bærinn sem komist hefur á kortið vegna sjónvarpsþáttanna um Wallander er ávísun á vonbrigði.

Hefðbundinn sænskur miðbær. Mynd Christer

Út af fyrir sig stendur þessi tuttugu þúsund manna bær á fínum stað á austurströnd Svíþjóðar og það á Skáni sem er að margra mati yndislegasti hluti landsins. Víst er ágætur stemmari í aðalgötunni að sumarlagi og andvari af hafi þýðir að hér verður aldrei mollulegt.

En það vantar eiginlega að Wallander sé raunverulegur og hér séu glæpir og morð á fimm mínútna fresti. Því hér er nánast ekkert að upplifa nema mæla göturnar.

Stonehenge Svía er forvitnilegt fyrirbæri.

Maríukirkjan sæmileg og leikhúsið sömuleiðis. Þá er hér gamalt klaustur hvar inni má vitna sögu bæjarins gegnum tíðina. Fólkið vinsamlegt og töff litlir barir og veitingastaðir. Í þokkabót er hér Ystad Studios Visitors Center sem er lítið kvikmyndaver og þar gefur að líta muni úr þeim kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem teknir hafa verið upp í bænum. Töluvert af upplýsingum um okkar þurra Wallander fyrir aðdáendur.

En það þarf út úr bænum til að vitna eitthvað merkilegra en gengur og gerist.

Þar helst gæjalegur gamall kastali, Marvinsholms Slot, í tíu mínútna fjarlægð frá bænum sjálfum til vesturs sem við mælum með. Merkilegar turnspírur á honum sem óvíða finnast á köstulum á Norðurlöndum og kastalagarðurinn ljúfur. Merkasta sjónin mætir fólki þó í tuttugu mínútna fjarlægð til austurs meðfram ströndinni. Þar finnst stórmerkilegur steinhringur, Ales Stenar, á hárri hæð við sjóinn. Fyrirbærið gjarnan kallað Stonehenge Svía en hnullungarnir töluvert minni og léttari en þeir ensku.

Sem sagt: ekkert alslæmt að stoppa í einn kaffi eða svo og kannski sólarhring fyrir hörðustu aðdáendur Wallander en enginn þarf að missa svefn þó brunað sé áfram til næsta staðar á Skáni.