Tæplega tuttugu árum eftir að flugfélagi hugkvæmdist að auglýsa sjálft sig á samfélagsmiðlum með því að bjóða skemmtilegu fólki fríar flugferðir um víða veröld datt Skúla Mogensen það sama í hug. Tveir bandarískir strákar, Rob og Brad, hafa ferðast töluvert í þessu skyni fyrir Wow Air. En árangurinn er dapur.

Rob og Brad eigna sér heiminn. En ekki alveg… Skjáskot
Þetta var auglýst allt duglega á sínum tíma. Fríar ferðir hingað og þangað um heiminn fyrir þá sem voru fyndnir og skemmtilegir og auglýstu ferðir Wow Air í leiðinni.
Frábær hugmynd ef árið væri 2003 þegar engum hafði dottið þetta í hug. Aðeins verra fimmtán árum síðar.
Skemmst frá að segja að hinir bandarísku Rob og Brad eru ekki beint að kveikja í samfélagsmiðlum þegar þetta er skrifað. Samkvæmt tölum YouTube, sem er vitaskuld helsti vettvangurinn fyrir efni sem kynna á fegurð og skemmtilegheit landa og þjóða, hafa sjö hundruð einstaklingar horft á Rob og Brad þvælast um Boston í Bandaríkjunum.
Hvers vegna tökum við Boston út fyrir sviga? Jú, vegna þess að þrátt fyrir töluverða leit finnum við ekkert annað efni frá Rob og Brad á þeim miðli ef frá eru talin nokkur myndbönd frá Reykjavík. Myndband bandarísku félaganna um Reykjavík hefur, þegar þetta er skrifað, heillað hvorki fleiri né færri en 2200 einstaklinga.
Feitt dapurt hjá Wow Air og vekur furðu að flugfélagið eyði milljónum króna í slíkt prógramm meðan Jón og Gunna bíða í þrjár klukkustundir eftir sambandi við þjónustudeild flugfélagsins á Indlandi. Eða sex mánuði eftir bótum vegna farangurs sem aldrei skilaði sér.
Alvarlega röng forgangsröðun hjá Mogensen.







