S egafredo, Illy, Danesi og Lavazza. Þrátt fyrir fjöldaframleiðslu verður kaffi ekkert mikið ljúffengara en sé það ítalskt og þá allra helst ef merkið er þekkt um víða veröld og bollinn kostar formúgu. Eða hvað?

Kaffibollinn í Eþíópíu kostar lítið sem ekkert en það tekur sannarlega tímann sinn að fá sinn koffínskammt.
Það hélt einn kaffiþyrstur einstaklingur úr ritstjórn lengi vel og gerði sér sérstakt far um að stúta bollum eingöngu á stöðum sem buðu upp á heimsklassa ítalskt kaffi og auðvitað þráðbeint úr baunum. Allt annað var fyrir neðan hans virðingu. Þetta, nota bene, sami gaur og kleif fjall á Jamaíka til þess eins að kaupa þrjú kíló af því sem þá var dýrasta kaffi heims af einum af bændunum sem ræktaði kaffið atarna hér rétt fyrir aldamótin.
En víða er babb í bátum og það á líka við um ítalskt kaffi þó gott sé.
Sjáðu til, ítalskt kaffi er tæknilega ekki til. Nánast hver einasta kaffibaun sem heimsþekktir ítalskir „framleiðendur” setja í poka sína kemur frá því landi sem er raunverulega nafli kaffis í heiminum: Eþíópía.
Fimm stjörnu fyrsta flokks súpergott kaffi
Ritstjórnarmeðlimur var nýlega í tíu daga túr um Eþíópíu og þó landið sé fallegri en margan grunar og heimafólk ljúfara en fótanuddtæki eftir langan vinnudag á gólfinu þá stóð upp úr hvað kaffið ALLS STAÐAR var fimm stjörnu fyrsta flokks súpergott. Og fyrir því er æði góð ástæða.
Þú skalt hugsa þig um tvisvar áður en þú þiggur kaffiboð almennt í Eþíópíu. Ekki svo að skilja að þar finnist ekki vestrænar kaffikeðjur þar sem þú færð þitt hefðbundna Starbucks latte á hálfri mínútu. En sé þér boðið kaffi af heimamanni eða sækir heim innlendan kaffistað skaltu gera ráð fyrir klukkustund hið minnsta. Það hins vegar klukkustund sem þú gleymir seint eða aldrei.

Í Eþíópíu eru þrír kaffibollar algjört lágmark en það tekur klukkustund og stundum lengur að fá þá framreidda þó skammtarnir séu smáir.
Bunna maflat
Það þykir ekki móðins í Eþíópíu að bjóða í uppáhelling eða annan slíkan viðbjóð. Ef þú þiggur kaffi hjá heimafólki fer í gang heljarinnar seremónía sem getur tekið allt upp í tvær klukkustundir ef allt er gert eftir kúnstarinnar reglum og þá ekki síst ef þú ert stödd eða staddur í sveitinni. Klukkustund er þó víst meðaltíminn svona heilt yfir en það er þess virði sökum þess að þú færð að smakka það sem er líklega ferskasta kaffi á heimskringlunni.
Enginn maður með mönnum í þessu fátæka landi án þess að eiga poka af ferskum grænum kaffibaunum á lager og það er dregið fram ef gesti, innlenda sem erlenda, ber að garði. Þeir kalla þetta bunna maflat á máli innfæddra.
Ferskum baununum umsvifalaust hent á brennheita pönnu sem oft stendur á heimatilbúnu eldstæði. Grænar baunirnar fljótar að verða dökkar á pönnunni og þá hefjast heimamenn handa við að mala þær í frumeindir áður en baununum er hent í brennheitt vatn þar sem kaffið mallar um stundarkorn á opnum eldi. Í kjölfarið er kaffinu helt gegnum síur og gjarnan kveikt á reykelsum í leiðinni.
Gestir fá þrjá umganga af kaffi og hver umgangur meira soðinn en sá næsti. Hugmyndin sú að hver bolli fyrir sig tákni síaukna hamingju og vellíðan. Sykur er gjarnan notaður með og það í magni sem hefur ekki sést síðan sykur kom á markað fyrsta sinni en ekki er útilokað að gestir fái líka salt í kaffið og stundum líka heimatilbúið smjör. Til að bæta enn ofan á furðulegheitin er mjög gjarnan boðið upp á popp svona með kaffinu.
Klukkustund gefur gull í mund
Harðsvírað viðskiptalið gæti aldrei notið slíks kaffitíma en hinum sem ferðumst með það í huga að njóta og helst læra nýja hluti í leiðinni gæti þótt kaffibolli hjá heimafólki í Eþíópíu barasta sérdeilis frábær minning. Og kaffið maður minn!!! Lavazza fær engin verðlaun eftirleiðis…
PS: á ferðunum í Eþíópíu nutum við leiðsagnar ferðaþjónustufyrirtækisins ToursByLocals. Fengum feitan afslátt en hikum ekki við að mæla með fyrirtækinu þrátt fyrir það.