H in stórkostlega gönguleið meðfram strandlengju Cinque Terre í Lígúría á Ítalíu fer í flestar bækur sem ein fallegasta gönguleið heims. En getur verið að ástina sé þar að finna líka?

Sannarlega fallegt og rómantískt í leiðinni. En kveikir þetta ástina? Mynd Armando Maynez

Sannarlega fallegt og rómantískt í leiðinni. En kveikir þetta ástina? Mynd Armando Maynez

Sennilega ekki enda sú tilfinning vandfundin og týnist reglulega eins og tæplega helmingur vesturlandabúa sem skilið hafa að borði og sæng eru til vitnis um.

Engu að síður telja margir að hluti af þessari frægu gönguleið sé það yndisleg að það smiti inn í sál og líkama þeirra sem þar ganga og pör sem það gera fella hugi saman í kjölfarið.

Vissulega verður að hafa vaðið fyrir neðan sig í málefnum ástarinnar og sérstaklega á Ítalíu þar sem blóð- og tilfinningahiti er ólíkt meiri en gerist á norðurslóðum. En heimamenn segja það meina bót og þar með talið ástleysi að ganga og njóta þess hluta gönguleiðarinnar sem kallast Via dell´Amore eða stígur ástarinnar í lélegri þýðingu.

Stígur ástarinnar er rétt rúmlega kílómetra langur spottinn milli bæjanna Manarola og Riomaggiore og þar finna gestir ekki aðeins stórkostlega útsýn til hafs heldur og heyra öldurnar brotna ljúflega við strönd. Hér er líka búið að koma fyrir nokkrum skúlptúrum til marks um ástina. Rósir og hengilásar fást hjá sölumönnum sem hér vappa líka um og hengilása má víða sjá á leiðinni. Þeir eiga að tákna ævarandi ást og vináttu tveggja einstaklinga. Lítið kaffihús selur hressingu á leiðinni og meðfram stígnum eru einar þrjár aðgengilegar litlar víkur þar sem njóta má örlítið meira næðis ef svo ber undir.

Allt er þetta afar túristavænt og líklega sett þannig á svið. En það breytir ekki því að jafnvel þó fólk leiti ekki ástarinnar er þetta ómissandi göngutúr sé fólk á annað borð að staldra við hér um slóðir. Útsýnið er ógleymanlegt.

Nánar um Cinque Terre í vegvísi okkar hér.