Skip to main content

L engi vel var það kallað kampavín fátæka fólksins en ekki lengur. Hið spænska freyðivín sem selt er sem Cava um heim allan nýtur vaxandi vinsælda á kostnað hins raunverulega kampavíns frá Frakklandi.

Vilafranca del Penedes í Katalóníu er einn ákjósanlegur staður langi fólk aðeins út fyrir Barcelona eða frá ströndinni. Mynd Angela Llop

Vilafranca del Penedes í Katalóníu er einn ákjósanlegur staður langi fólk aðeins út fyrir Barcelona eða frá ströndinni. Mynd Angela Llop

Sömu sögu er að segja hérlendis. Cava hefur lengi verið selt í vínbúðum landsins og ósjaldan er slíkur drykkur í boði á hátíðarstundum. Vínáhugafólk ætti ekki að vera í vandræðum með að þekkja vörumerki á borð við Freixenet eða Codorniu sem eru risar í freyðivínsframleiðslunni.

En færri vita kannski að mesta freyðivínsframleiðsla á Spáni fer fram einungis spottakorn frá Barcelona í Katalóníu. Á tiltölulega litlum bletti í héraðinu Penedès er hartnær 90 prósent alls Cava framleitt. Þangað er innan við klukkustundarkeyrsla frá borginni sem gerir Penedès að sérdeilis fínum áfangastað fyrir dagsferð eða svo. Héraðið er nánast beint upp af strandstaðnum Sitges sem margir kannast við.

Hjá stóru aðilunum er vitaskuld hægt að taka túra og kynnast framleiðsluferlinu og jafnvel komast í smökkun. Báðar ofangreindar víngerðin bjóða slíkt nánast allan ársins hring. En einn öllu minni framleiðandi, Art Cava, tekur áhugasama enn dýpra en það. Art Cava heldur nefninlega stutt námskeið þar sem vínáhugafólk fær að vita allt um allt sem þarf og rúsínan í pylsuendanum sú að hægt er að framleiða sitt eigið freyðivín eftir eigin höfði ef svo ber undir.

Auðvitað geta aðhaldssamir líka prófað sig áfram með freyðivínsframleiðslu í kjallaranum heima á Íslandi en það er allt annar og leiðinlegri hlutur.

Annars skiptir ekki höfuðmáli hvar fólk stígur niður fæti í Panadès. Hér er fjöldi smærri bæja og þorpa sem sum hver er yndisleg að sjá. Víngerð er víða stunduð og stærri víngerðirnar vel merktar.

Svo er líka ráð að taka lest eða rútu hingað ef ætlunin er að prófa eitthvað af þeim fjölmörgu tegundum Cava sem hér eru í boði. Enn betra að gista nótt einhvers staðar svo ekki komi til þess að aka þurfi til Barcelona undir áhrifum.

Heimasíða Art Cava hér þar sem forvitnast má um hvenær námskeið eru, kostnað og annað sem fólk hefði gaman að vita.