V ið þekkjum þetta væntanlega öllsömul í heitum löndum heims. Við svitnum og svitnum og svitnum og svo svitnum við.

Mikill sviti getur verið óþægilegur fylgifiskur þess að dvelja í erlendum löndum. Salt og vatn eru lykilorð til varnar. Mynd Parker Knight

Mikill sviti getur verið óþægilegur fylgifiskur þess að dvelja í erlendum löndum. Salt og vatn eru lykilorð til varnar. Mynd Parker Knight

Það er mismunandi hversu mikið hver og einn svitnar og fer að hluta eftir því hversu vant fólk er því hitastigi og loftslagi sem um ræðir í hvert skipti.

Eitt eigum við þó sameiginlegt að vilja helst ekki svitna mikið en þar hafa lyfja- og læknavísindin gert jafnmikið fyrir okkur og varðandi kvefpestina: ekkert. Og með hitnandi heimi verður þetta bara stærra vandamál.

Það er engin þekkt leið sem virkar fyrir alla en víða um heim eru frumbyggjar með ýmsar aðferðir til að berjast við svita. Það eru jú ekki aðeins norræna fólkið með náhvíta hörundið sem svitnar í hita. Það gera allir.

Fyrir utan að liggja grafkyrr eins og skata í dimmu og loftkældu horni, sem gerir sumarfríið heldur leiðinlegt, er þó eitt og annað sem við getum gert til að minnka þó svitaframleiðsluna þó ekkert komi alveg í veg fyrir slíkt.

Velþekkt er víða, eins og í Grikklandi, Indlandi, Brasilíu, Spáni, Marokkó og Túnis, að innbyrða eins mikið salt á heitustu dögunum og hægt er án þess að æla. Það er að hluta til þess vegna sem íslenski saltfiskurinn leikur svo stórt hlutverk í mataræði þjóða á borð við Spán, Portúgal og Brasilíu. Sömuleiðis áberandi er mjög saltað snakk eða saltað nesti með í för þegar heimamenn á þessum slóðum leggja leið sína á ströndina.

Sviti per se er í raun tvenns konar fyrirbæri. Skipta má því niður í kaldan svita og heitan svita. Það er að segja að sviti á sólarströnd í Alicante er annars konar sviti en þegar forstjórinn er að halda reiðilestur yfir þér í vinnunni í Árbænum. Hægt er að losna við þann síðarnefnda með að standa sig framar vonum í vinnunni en hinn er flóknara mál.

Fyrir utan að borða saltmettaðan mat eða með einhverjum hætti fylla líkamann af salti reglulega er líka ráð að drekka kælandi vatn og mikið af því. Léttur matur skiptir einnig máli og sannað er að vel kryddaður matur eykur svitaframleiðslu til muna. Sömuleiðis auka áhyggjur af svita svitamagnið og því skal reyna að hugsa um eitthvað aðeins skemmtilegra.

Víða við Indlandshafið er það talið þjóðráð þegar fólk byrjar að svitna mikið að drekka brennandi kaffi eða te. Þá aðferð hefur einn úr ritstjórn Fararheill prófað með mjög góðum árangri en það virkar aðeins ef drykkurinn sannarlega er brennandi heitur. Deila má um hvort sársaukinn við að þamba brennandi heitan drykk sé sniðugri hugmynd en að svitna bara út í eitt.

Fyrir okkur Frónbúa er ekki svo fráleitt, ef fólki er sama um lyktina, að grípa með sér á erlenda grund rammíslenskan en sæmilega saltaðan harðfisk og háma hann í sig á ströndinni eða þegar svitakirtlarnir detta í yfirvinnu. Fyrir utan að vera grimm að skoppast í sjóinn eða laugina sé slíkt í nánd.