Skip to main content

Þ að auðvelt að finna greinar í íslenskum fjölmiðlum þar sem hinar og þessar bæjar- og sveitastjórnir hugsa stjórnvöldum þegjandi þörfina og vísa þar til þess að njóta þess ekki neitt að hingað hafa flykkst ferðamenn sem aldrei fyrr síðustu árin með tilheyrandi kröfum um þjónustu, án þess að ríkið hafi veitt neinum neitt aukalega. Þau bæjar- og sveitarfélög gætu gert eins og þessi fjögur hér að neðan 🙂

HUA SUA TAO, TÆLAND

Hua Sua Tao er eitt sextán bæja/þorpa í Tælandi þar sem ætthöfðingjar gera kröfu um að kvenfólk lengi háls sinn með skartgripum strax frá fæðingu. Aldeilis fáránlegur siður og auðvitað eingöngu beint gegn kvenfólki sem vafalaust þjáist mikið um áraraðir. Það breytir ekki því að mörgu erlendu ferðafólki finnst mikið til koma og gerir sér far um að vitna herlegheitin í nærmynd plús auðvitað að taka selfís og hvaðekki til að monta sig á samfélagsmiðlum. Undarlega lítið fer fyrir gagnrýni á þennan gamla sið enda er flott mynd gulli betra. Ætthöfðinginn í Hua Sua Tao hefur aldeilis fundið leið til að njóta lífsins því þar í bæ þurfa gestir að greiða aðgangseyri að bænum. Heilar 1400 krónur þegar þetta er skrifað. Vart þarf að taka fram að bæjarbúar og þaðan af síður kvenfólkið nýtur góðs af þeim peningum.

CAT CAT, VÍETNAM

Ekki amalegt að búa í þorpi sem heitir Cat Cat eða Köttur Köttur á ylhýrri íslenskunni. Það þorp finnst í afdölum Víetnam og þar merkir köttur líka kött. En þetta ákveðna þorp notast við dagatal sem löngu er búið að henda fyrir róða en í því dagatali á ár köttsins að vera sérstaklega heillavænlegt. Það veitir þorpsbúum styrk til að takast á við áskoranir og þrek til að þola harðæri fram úr hófi. Hvað þá þegar nafnið er endurtekið. Það merkir klárlega megastyrk og megaþol. Nema ekki alveg. Þorpstjórinn í Cat Cat, sem er fallegt en ekki einstakt á neinn mælikvarða, tók upp á því þegar erlendum ferðamönnum fór að fjölga að heimta seðla fyrir heimsókn. Nánar tiltekið fimm hundruð krónur á kjaft. Þarna er reyndar fyrirtaks gömul vatnsmylla gerð úr bambus og bæjarbúar búa til sitt eigið kaffi en þá er það að mestu upptalið sem gerir Cat Cat heimsóknar virði.

HONGCUN, KÍNA

Nei, ekki Hong Kong heldur Hongcun. Fáir geta fundið þorpið Hongcun á korti. Enn færri gestir heimsækja. Það breytir ekki því að þorpsyfirvöld vilja sitt fyrir pundið og hafa sitthvað til síns máls. Þetta er staðurinn þar sem talið er að hin frægu kínversku fræði feng shui hafi fæðst. Yfirvöld í Hongcun hafa ekki bara tilfinninguna fyrir þeirri frægð heldur og Sameinuðu þjóðirnar hvers heimsminjaskrá hefur skráð Hongcun sem fæðingarstað feng shui. Feng shui er sem kunnugt er þau fræði er kveða á um að umhverfið, innanhúss sem utan, hafi ótvíræð áhrif á heilsu manna og dýra. Sé allt í rusli líður lifandi verum illa en séu híbýli eingöngu skreytt með þessu nauðsynlega líður sömu verum vel. Það kostar litlar 1900 krónur íslenskar að stíga fæti inn í þorpið.

NUSFJORD, NOREGUR

Vel utanvega í fjörðum hins dásamlega Lofoten í Noregi er að finna fjörð einn sem sker sig frá öðrum.  Nusfjörður heitir sá, Nusfjord á máli heimamanna, og þangað stígur engin sála án þess að rífa upp veskið. Nánar tiltekið 1500 krónur fyrir herlegheitin. Hvers vegna það? Jú, aðeins 22 manneskjur búa og lifa í Nusfirði og draga þar eingöngu fram lífið á fiski og því tilheyrandi. Þess utan er flatlendi í firðinum á pari við lítið íslensk frímerki. Í Nusfirði er samt að finna ein 40 dágóð híbýli og þar af sirka helmingur ætlaður ferðafólki. Nema að eðli máls samkvæmt eru öll húsin í þessum firði byggð að öllu leyti eða að hluta til á stultum. Það, fyrir utan að tilheyra hinu stórkostlega Lofoten-svæði, gerir heimafólki kleift að heimta seðla fyrir heimsóknir. Og miðað við að þangað komu samt 20 þúsund erlendir ferðamenn árið 2019 segir sína sögu.