Skip to main content

F yrir okkar leyti er fátt skemmtilegra á þvælingi um heiminn en detta óvænt um ókunnugt fyrirbæri í einhverjum smábæ sem varla finnst á korti. Slíkar stundir reyndar erfiðara að upplifa nú þegar allt er meira og minna komið á netið. Og þó.

Hálfnað er verk þá hafið er. Maístöng fer á loft á torgi Siegertsbrunn. Mynd toetoe

Hálfnað er verk þá hafið er. Maístöng fer á loft á torgi Siegertsbrunn. Mynd toetoe

Sá sem röltir um miðbæ margra bæverskra fjallaþorpa þann 29. apríl ár hvert finnur fátt sérstakt sem kallar á að senda póstkort og sjálfsmynd. Auðvitað eru flestir slíkir fjallabæir og þorp yndisleg per se, með steini lögðum níðþröngum götum og aldagömlum arkitektúr fyrir utan yfirleitt ljúft viðmót bæjarbúa og afar heilnæmt fjallaloftið. En samt ekkert of sérstakt.

En ef sami einstaklingur labbar sömu slóðir tveimur dögum síðar, þann 1. maí, er litla, ljúfa miðborgartorgið orðið iðandi af mannfjölda og hávaða og bæjarbúar margir komnir í sitt fínasta púss. Sums staðar fer skrúðganga um bæinn áður en stoppað er á torginu en oftar ganga menn strax til verks. Verkið í þessu tilfelli að reisa upp á endann eins langa skreytta viðarstöng og þeim er frekast unnt. Þetta kallast á máli Þjóðverja Maibaum og að reisa viðarstöngina kallast maibaumaufstellung.

Maibaum gætu einhverjir þekkt frá Skandinavíu og þá sérstaklega Svíþjóð en þar heitir fyrirbærið auðvitað Maístöng. Svíarnir aftur á móti halda þá hátíð yfirleitt um sumarsólstöður en ekki 1. maí.

Maístangir eru alltaf skreyttar og oft merktar líka á ýmsan hátt. Mynd Dagger auf Reisen

Maístangir eru alltaf skreyttar og oft merktar líka á ýmsan hátt. Mynd Dagger auf Reisen

Sá siður að reisa sameiginlega langa viðarsúlu eða stöng hátt upp í loft þennan dag nær aftur til sextándu aldar en ástæðan er óljós. Sumir fræðimenn tengja þetta heiðinni trú meðan aðrir segja þetta aðeins tengjast komu sumars.

Þetta er hins vegar einn allra stærsti viðburðurinn ár hvert í þýskum fjallaþorpum og trekkir töluvert að en þó ekki svo að um túristagildru sé að ræða. Þetta er alvöru og vei þeim túrista sem þvælist fyrir þó því fari fjarri að heimamenn séu leiðinlegir. Þvert á móti eru flestir komnir í fínasta skap fyrir hádegi hátíðisdaginn því bjór og meðlæti er á öllum borðum fljótlega eftir að sól rís.

Þetta er innilega skemmtilegur viðburður og sökum þess að yfirleitt fer þetta fram á miðbæjartorginu er jafnan hægt að fylgjast með í rólegheitum beint frá næsta kaffihúsi eða veitingastað.

Yfirleitt er stöngin sjálf ekki reist fyrr en síðdegis en strax fyrir hádegi drífur að fólk til að skreyta stöngina og mála og þar vanda menn sig sem væru svissneskir úrsmiðir. Að hífa ferlíkið svo upp kallar á samstillt átak tuga og stundum hundruða karlmanna.

Maibaum fer fram í næstum öllum bæjum og þorpum í Alpahéruðum Þýskalands en þó ekki árlega í þeim öllum. Vænlegast að forvitnast á næstu upplýsingamiðstöð hvar hátíðin fer fram hverju sinni og tryggja sér gistingu í nágrenninu deginum áður eða svo.

Þessu tengt en öllu minna sjónarspil er fyrirbæri sem kallast Maibäume. Þá reisa ástfangnir menn sína eigin maístöng fyrir framan heimili elskunnar. Þær vitaskuld öllu minni og sá siður á undanhaldi en sannarlega skemmtilegt uppátæki.

Enginn þarf að örvænta þó ekki hittist á 1. maí. Maístöngin fær í flestum tilvikum að vera á sínum stað út maímánuð og sums staðar lengur en það.

[alert type=success]Hátíð þessa er líka hægt að upplifa í nokkrum borgum sem við Alpafjöll standa bæði í Þýskalandi og Austurríki. München og Salzburg tvær þeirra og þangað flogið beint héðan. Það er þó túristafnykur af þeim og ekki sama alvara að baki og í fjallaþorpum. Best að fljúga til München og fara þaðan upp í þorpin.[/alert]