Skip to main content

H ellarnir í Ajunta eru ekkert sérstaklega þekktir utan heimalandsins Indlands. En að okkar viti á staðurinn sannarlega skilið að vera meðal helstu manngerðra minja heims ekkert síður en píramídarnir í Egyptalandi.

Þverhníptir hamrar við Ajunta gilið á Indlandi. Þar fannst forverum tilvalið að högga til eina NÍTJÁN hella inn í hart bergið. Hver og einn hellir er sjón að sjá.

Nei, auðvitað hefur þú heldur ekki heyrt talað um Ajunta. Þó staðurinn atarna sé æði vel þekktur meðal heimamanna er hann ekki þjóð- eða heimsþekktur eins og Taj Mahal hofið eða Ganges fljót eða aðrir sívinsælir ferðamannastaðir Indlands.

En Ajunta á sannarlega heima þar á meðal ef þú spyrð okkur.

Hvers vegna?

Jú, Ajunta heitir gil eitt bratt og þröngt í átta klukkustunda fjarlægð frá borginni Mumbai. Hér ágætt að hafa hugfast að í þessu risavaxna landi þykir átta klukkustunda ferðatími bara eitthvað ofan á brauð og ekkert sérstakt tiltökumál.

Tvö hundruð árum áður en Kristur gerði Rómverjum lífið leitt við Miðjarðarhafið hvíldu sig nokkrir Búddamunkar við gilið atarna og fannst mikið til koma. Nógu mikið til að þeir héldu ekkert lengra heldur settust hér að og hófu að grafa miklar hvelfingar inn í brattan hamravegginn.

Í tæplega fimm hundruð ár í kjölfar fyrstu búddamunkanna sem hér settust að og hófu að hamra vegginn komu hingað munkar af öllum stærðum og gerðum og héldu verkinu áfram. Hér skyldi vera heilagur staður búddamunka hvað sem tautaði og raulaði.

Og viti menn, nokkrum öldum síðar finnast hvorki fleiri né færri en nítján manngerðar hellahvelfingar í berginu við Ajunta. Einungis sex þeirra eru taldir fullgerðir en aðrir þrettán aðeins hálfkláraðir. En maður minn, hvað það er áhrifaríkt að rölta inn í þó ekki nema einn af þeim hellum sem hér finnast.

Hver einasti hellir er skreyttur í hólf og gólf  og sumir þeirra á pari við það allra besta sem steinsmiðir hafa nokkurn tímann hoggið í veröldinni. Jafnvel þó búddatrúin og steinsmíðin sé ekkert að heilla er fantagott útsýni frá hellahvelfingunum langt yfir grænan skóginn svo langt sem augað eygir til suðurs.

Vissulega átta stunda túr aðra leið frá borginni Mumbai, sem bæði Icelandair og Wow Air hyggjast bjóða beint flug til og frá á næstunni, en túrinn sannarlega þess virði ef þú spyrð okkur. Þessir hellar eru þegar á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna en eiga skilið svo mikið meira en það.