F átt í veröldinni jafnast á við að vera í sjónum við hlið stærri spendýra eins og hvala eða fjörmikilla höfrunga. Það er þó yfirleitt tiltölulega dýrt, erfitt og á stundum hættulegt enda yfirleitt á hafi úti eða í dýpri fjörðum. En það er hvorki dýrt, erfitt né hættulegt að leggjast til sunds með sækúm.

Sækýr eru ekki höfrungar eða hvalir en eru engu að síður skemmtilegir sundfélagar

Sækýr eru ekki höfrungar eða hvalir en eru engu að síður skemmtilegir sundfélagar

Sú ágæta dýrategund fer seint í bækur sem fríð eða krúsídúlluleg dýr en reyndin er sú að þessir hægfara risar eru engu síður áhugasamari um mannkynið en mannkynið um þá.

Þannig eru þeir líklegir til að snúllast kringum þá sem leggjast til sunds með þeim. Rannsóknir hafa sýnt að viðvera mannanna hefur engin eða lítil neikvæð áhrif á dýrin meðan fjöldinn er takmarkaður eins og raunin er víðast hvar þar sem gert er út á slíkt.

Sækýr finnast víða í suðvesturhluta Bandaríkjanna en fyrir Frónbúa er nærtækast að sækja heim Crystal River & Springs eða Blue Springs en báðir staðir eru í um klukkustundar fjarlægð frá Orlando en þangað er beint flug frá farsæla Fróni eins og flestum ætti að vera kunnugt.

Á báðum stöðum er mögulegt að henda sér út í og dúllast kringum sækýrnar með þeim fyrirvara að leyfa þeim að vera í friði sé hvíldartími. Það er afskaplega heilagur tími hjá kúnum en meira að segja þá er sjón að sjá þær þar sem þær hanga líflitlar í vatninu.

Gróf könnun leiðir í ljós að hægt að er taka túra með allnokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum og skaffa þau flest allan þann búnað sem til þarf. Slíkt kostar kringum 7.000 krónur samkvæmt úttekt Fararheill.

Sækýr eru hættulausar með öllu þó stórar séu. Það eina sem fólk þarf að hafa í huga er að forðast úrgang frá dýrunum en það er auðvelt.