Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, telur ekki vera grundvöll fyrir að reka lággjaldaflugfélag frá Íslandi. Afar merkileg yfirlýsing sé haft í huga að Skúla Mogensen tókst það mætavel þangað til græðgin bar hann ofurliði.

Stjóri Icelandair segir vonlaust að reka lággjaldaflugfélag á Fróni. Mynd Icelandair

Í greinastúf á vef Viðskiptablaðsins þennan daginn kemur fram að forstjóri Icelandair telur ekki hægt að reka lággjaldaflugfélag á íslenskum grunni í samkeppni við lággjaldarisa á borð við Wizz Air eða easyJet.

Nú liggur ekki fyrir hvort stjóri Icelandair trúir þessu sjálfur eða hendir þessu fram til að draga úr kjarki þeirra sem eru að leita leiða til að koma Wow Air eða sambærilegu flugfélagi á laggir á ný. Hið síðarnefnda er líklegri pakki því Skúli Mogensen sýndi nefninlega fullkomlega fram á að íslenskt lággjaldaflugfélag getur gengið alveg príma ef stígið er varlega til jarðar í útrásinni.

Fyrstu þrjú rekstrarár Wow Air, 2012 til 2015, tapaði flugfélagið 1,6 milljörðum króna alls. Það tap nánast í heild greiddi Wow Air upp með rekstrarhagnaði ársins 2015 sem nam 1,5 milljarði króna. Ergo: fyrirtækið komið því sem næst á núllið.

Allt gekk príma þangað til Mogensen missti sig í græðginni. Mynd Isavia

Árið 2016 nam rekstrarhagnaður Wow Air 3,7 milljörðum króna. Flugfélagið því tæknilega í 3,6 milljarða króna plús í lok árs 2016. Ekkert amalegt við það hjá nýju lággjaldaflugfélagi og þá þegar voru Wizz Air og easyJet að bjóða töluvert úrval af flugferðum til og frá Íslandi án þess að það drægi úr vinsældum Wow Air.

Það var hins vegar í lok árs 2016 sem Skúli Mogensen drakk sinn eitraða græðgisbikar.Í stað þess að stíga á bremsuna og fara varlega á sama tíma og ýmislegt benti til þess að eldsneytisverð gæti hækkað verulega ákvað Mogensen að leggja allt sitt undir.

Árið 2017 fór flugfélagið að leigja og fljúga breiðþotum hingað og þangað og bauð upp á áfangastaði lengst í rassgati eins og Tel Aviv, Miami og Dallas og Los Angeles svo fjögur dæmi séu nefnd. Svo ekkert sé minnst á Indlandsferðir sem komu síðar.

Sem í sjálfu sér er gott og blessað nema fyrir þá staðreynd að ekkert lággjaldaflugfélag neins staðar í heiminum brúkar breiðþotur og ef frá er talið Norwegian, reyndu engin þeirra að bjóða upp á langferðir á spottprís. Eða hvers vegna hafa þrjú af stærstu lággjaldaflugfélögum Evrópu; Ryanair, easyJet og Wizz Air aldrei boðið upp á lengri flugferðir en þetta fimm til sex klukkustundir? Ástæðan einfaldlega sú að lengri flug en það þýða að vélin nær ekki að fljúga samstundis til baka sökum vinnureglna áhafna. Þá þarf að geyma rellu erlendis yfir nótt meðan áhöfnin hvílist og flugrekandi þarf auðvitað að greiða hótel og uppihald á næs hóteli á meðan. Feitur aukakostnaður og engin innkoma.

Primera Air reyndi þetta módel og við vitum hvernig það endaði þó starfsfólkið væri á þrefalt lægri launum en íslenskt starfsfólk og tvísýnt er um framtíð Norwegian sem einnig hefur reynt ýmis langflug á síðustu tveimur árum með hrapallegum árangri.

Það er því engin spurning að okkar mati að íslenskt lággjaldaflugfélag getur vel lifað og þrifist á alþjóðamarkaði þrátt fyrir há laun íslensks starfsfólks. Galdurinn bara að vita hvenær á að stíga á bensíngjöfina og hvenær á bremsuna…