Nýr, sterkur kandidat í næstu Útflutningsverðlaun forseta Íslands er fram kominn. Icelandair ætlar að skera niður störf og kostnað með því að útvista bókhaldinu til Eistlands og þjónustuverinu til Filippseyja! Hvað getur farið úrskeiðis…

Lífeyrissjóðir tapað milljörðum á Icelandair og nú skal fækka störfum hér líka.
Forstjóri Toyota, og stjórnarformaður Icelandair, strax kominn með blúprint að því hvernig hægt er að ná meira jafnvægi í rekstur íslenska flugfélagsins svo fjárfestar fái nú kannski meira fyrir sinn snúð á næstu vertíð: með því að segja upp fjölda fólks hér heima.
Fram kemur í viðtali Viðskiptablaðsins við stjórnarformanninn að verið sé að vinna að því að koma bókhaldi flugfélagsins til fyrirtækis við Eystrasalt og ennfremur að þjónustuverið verði í framtíðinni mannað Filippseyingum á Filippseyjum. Karlinn segir laun á Íslandi allt of há og við því verði að bregðast með útvistun þar sem því er komið við.
Merkilegt nokk spyr blaðamaður VB alls ekkert að því hversu mörg íslensk störf tapast við þessa gjörninga en líklega er óhætt að skjóta á að bæði bókhaldsdeild Icelandair og þjónustuverið eru mönnuð tugum einstaklinga. Né heldur bendir blaðamaður forstjóranum á að kannski séu laun á Íslandi mjög há í alþjóðlegum samanburði vegna þess að hvergi í veröldinni er dýrara að lifa. Og hvað með hann sjálfan? Ef stjórnarmaðurinn á hundrað millur undir koddanum til að kaupa bréf í eigin félagi er þá ekki líklegt að hann sé sjálfur allt of vel launaður?

Vesen í flugi með Icelandair á næstunni. Hér er nýja þjónustuverið.
Verst þó með þjónustuverið. Enginn vafi að útvistun þjónustuvers til fjarlægra láglaunalanda sparar tugmilljónir króna á ársgrundvelli og jafnvel meira en það. En þá gerist líka tvennt. Icelandair fær mínus í kladdann hjá íslenskum viðskiptavinum sem þurfa á aðstoð að halda og er gert að tala ensku hjá þjónustuveri flugfélags sem kennir sig við Ísland. Plús að þjónustan til handa öllum versnar til mikilla muna.
Hvers vegna það?
Vegna þess að Magga Lár eða Sófus Steins sem nú starfa í þjónustuverinu eru einni hæð fyrir neðan forstjóra og yfirmenn flugfélagsins. Sé sannarlega vilji til að koma viðskiptavinum til hjálpar vegna hins og þessa sem á bjátar á ferðalögum tekur innan við mínútu að fá skýr svör. Í símaveri á Filippseyjum er hins vegar engum heimilt að taka ákvarðanir er varða viðskiptavini í neyð. Það er bara sorrí Stína.
Ekki síður hefur reynslan sýnt að símaver í fjarlægum löndum eru með allt of mörg fyrirtæki á sínum snærum svo biðtími viðskiptavina eykst til mikilla muna. Biðtími getur stundum verið tvær klukkustundir hjá indversku þjónustuveri Wow Air og jafnvel þeir sem hanga í símanum þann tíma fá oft enga aðstoð eða svör. Fjölmörg dæmi um slíkt má finna á samfélagsmiðlum. Engin ástæða til að ætla annað en það sama verði uppi á teningnum hjá þjónustuveri Icelandair.







