Hvað ætti ferðaskrifstofa að gera ef það sendir viðskiptavini sína á hótel sem reynist yfirfullt? Yfirfullt af kakkalökkum.

Kakkalakkahótel sem Heimsferðir buðu upp á og skitinn 15 þúsund kall í bætur!!!
Það er nákvæmlega það sem ferðaskrifstofan Heimsferðir þurfti að glíma við í desember 2015 þegar fjöldi farþega ferðaskrifstofunnar á tilteknu hóteli á ensku ströndinni á Kanarí fékk alls ókeypis félagsskap á herbergjum sínum. Kakkalakka og maura.
Kannski skýrir það dapra einkunn Heimsferða í skoðanakönnum Fararheill um bestu ferðaskrifstofu landsins?
Kakkalakkar reyndar ekki skemmtilegur félagsskapur og eðlilega varð fólk hlessa, hrætt og brjálað, í þessari röð. Það eru jú engir kakkalakkar innifaldir í verðinu sem greitt er fyrir ljúfa Kanaríferð. Né heldur maurar. Báðar skordýrategundir fundust í massavís á hóteli sem Heimsferðir mælti með og sendi hluta farþega sinna á í lok árs 2015.
Ef við tökum sanngirnina á þetta mál þá má ljóst vera að bæði kakkalakkar og maurar eru algengir alls staðar í heitu löndunum. Báðar tegundir komast líka nokkuð auðveldlega inn í hús og híbýli hvers kyns. En báðar tegundir auðvelt að losna við ef þess er gætt að þrifið sé vel hvern einasta dag. Kakkalakkar og maurar þurfa nefninlega að matast og ef ekkert er að finna nema hreingerningarlög er fátt annað í stöðunni en leita annað.
Það er hins vegar engin sanngirni í því að Heimsferðir bjóði farþegum sínum, hvers frí er að hluta ónýtt vegna skordýra, heilan fimmtán þúsund kall í bætur. Það ekki einu sinni í peningum heldur sem greiðslu upp í næstu ferð!
Alls óhætt fyrir Neytendastofu að skoða þetta í kjölinn ef þeir einhvern tíma líta upp úr búðagluggum á Reyðarfirði. Ef einstaklingur kaupir myglaða skinku í kjörbúð vesturbæjar þá er vafalaust lítill áhugi að kaupa skinku þar í framhaldinu. Fólk snýr sér annað. Kaupmaðurinn í kjörbúðinni hefur vit á því að endurgreiða mygluðu vöruna með peningum en ekki inneignarnótu. En ekki Heimsferðir.
Þess utan er óhætt að gera athugasemdir við 15 þúsund krónur. Vetrarferðir til Kanarí kosta nú yfirleitt ekki undir hundrað þúsund krónum á mann svona á ódýrustu hótelum með ferðaskrifstofunum.
Hvað gerist þegar þú móðgar viðskiptavin sem lent hefur í kakkalakkahelvíti í ferð með Heimsferðum? Móðgar hann eða hana með 15 þúsund krónum? Varla er forstjóri Heimsferða, viðskiptamaður ársins 2007, hissa að fólk fari í fjölmiðla?
Fimmtán þúsund krónur fyrir hopp og hí á hótelherbergi vegna skordýra er einfaldlega ekki boðleg upphæð. Sérstaklega ekki hjá ferðaskrifstofu sem hagnast hefur um ríflega 400 milljónir króna á síðustu árum. Þar af sent 300 milljónir af því beint í vasa Andra Más Ingólfssonar og annarra eigenda.
Ritstjórn Fararheill hefði boðið fólki strax að skipta um hótel, sent osta, rauðvín og persónulega afsökunarbeiðni til fólks á nýja hótelið og svo gefið þeim 50 þúsund króna endurgreiðslu að lágmarki.
Allt minna en þjónustulund og almennileg peningaupphæð er bara móðgun við viðskiptavininn. Viðskiptavini á Íslandi þar sem allir þekkja alla og fúl Kanaríferð er klárlega aðalumræðuefnið í afmælinu, vinnupartíinu, fermingunni og meðal vina og ættingja. Sem allir fá neikvæða mynd af Heimsferðum.
Hættið þessari nísku og farið að hugsa um viðskiptavininn sem VIN.







