Kyrrsettar vélar, leiðinlegt starfsfólk og forstjóri sem lætur reikna út og opinbera hvað hans eigin fokköpp kosta íslenskt þjóðfélag. En það er ekki bara mínusar við að Wow Air fari veg allrar veraldar.

Mogensen brattur þrátt fyrir hörmungar rekstur. Mynd Airbus

Dálítið kælt múv hjá herra Mogensen að greiða tilteknu ráðgjafarfyrirtæki hálfa milljón króna til að hamra saman skýrslu í einum grænum sem sýnir fram á hversu þjóðhagslega mikilvægt Wow Air sé Íslandi.

Of stórt til að falla er niðurstaðan. Sörpræs, sörpræs ekki satt? Ekki hvað síst að slík skýrsla detti inn um dyr fjölmiðla þegar flugfélagið er einu skrefi frá fjárhagslegu hengiflugi.

En tími til kominn að setja hlutina í samhengi.

Vissulega verður fall Wow Air högg fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Vissulega missa hundruðir vinnu hjá flugfélaginu en hér skal hafa hugfast að Wow Air notast við innflutt vinnuafl fyrir velflest skítastörfin og að hátt í fjögur þúsund manns missi vinnuna eins og skýrslan gefur til kynna er tóm tjara og þvæla.

Engir plúsar?

Margir kunna að senda okkur feitar pillur fyrir en raunin er sú að það eru minnst þrír jákvæðir pólar við að Wow Air fari í sögubækurnar.

A) Gúggli fólk Wow Air kemur í ljós að flugfélag Skúla Mog er ekki beint að dreifa hróðri Íslands um allar trissur. Fremur óhróðri eins og sjá má til dæmis hér og hér og hér.

B) Ýmislegt hefur bjátað á hjá Wow Air áður en fjárhagslegir örðugleikar komu til. Hvernig kom Skúli Mog fram við fólk sem ekki var sátt við sitt hjá flugfélaginu? Svona.

C) Wow Air, eins og Icelandair, hafa smám saman verið að breyta Keflavíkurflugvelli í samgöngumiðstöð fyrir erlenda farþega sína. Á mannamáli þýðir það að flugfélögin hafa veðjað á Atlantshafsflug milli Evrópu og Bandaríkjanna með fimm mínútna stoppi í Keflavík. Næstum HELMINGUR allra farþega beggja flugfélaga stoppa hér á landi aðeins í nokkrar mínútur eða klukkustundir. Nægilega langan tíma til að drulla sér eitthvað annað. Það hefur þýtt kúk og kraðak í Leifsstöð sem aftur hefur þurft að eyða tugmilljónum í uppbætur og breytingar og fyrirhugað er að eyða 20 MILLJÖRÐUM af skattfé í nýja og betri flugstöð fyrir þetta lið. En hvers vegna eiga íslenskir skattborgarar að punga út milljörðum króna til að einkaflugfélög geti brúkað okkar eigin flugstöð eftir hentugleikum? Með falli Wow Air og fækkun ferðamanna má ljóst vera að þörfin á 20 milljarða króna nýrri flugstöð í Keflavík er ekki lengur vandamál. Það verður bara fallið frá þeirri þvælu.

D) Skúli Mog sjálfur hefur næstum aldrei gefið fjölmiðlum færi á sér nema um drottningarviðtöl sé að ræða og þá aðeins að hann samþykki allar spurningar fyrirfram. Það má, með öðrum orðum, aldrei spyrja hann erfiðra spurninga. Sem aftur merkir að fólk fær aldrei merkilegar eða réttar upplýsingar gegnum fjölmiðla sem ná viðtali við kauða. Sem aftur minnir á viðtöl við Kaupþingsmenn haustið 2008…